145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[17:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna og þakka hv. flutningsmanni, Valgerði Bjarnadóttur, fyrir framsögu hennar. Það er bæði hollt og gott að hlusta á vangaveltur í málinu sem sannarlega er umdeilt því að oftar en ekki hafa þær hugmyndir verið viðraðar að ráðherrar gegni ekki þingmennsku meðan þeir eru ráðherrar. Flutningsmenn þessa frumvarps fara vissulega vægar í málið. Samkvæmt því er heimilt að ráðherrar segi af sér þingmennsku, gegni þeir ráðherraembætti. Og ef lengra væri gengið, að skylda þingmenn til að segja af sér þingmennsku ef þeir verða ráðherrar, þá þurfi stjórnarskrárbreytingu til. Eflaust er það rétt.

Mér finnst vera margir fletir á þessu máli og ég skil algerlega þá lýðræðisfleti sem talað er um, styrkingu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og að verið sé að undirstrika aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. En mér finnst samt málið ekki það einfalt. Þess vegna er hollt og gott að taka svona mál til umræðu. Oft koma hliðstæð mál til umræðu í þjóðfélaginu, mál sem flutt eru á þingi og umræðan í kjölfarið verður á þá leið að þarna sé komið eitthvert mál sem gerbreyti vinnu þingsins og lýðræðislegum vinnubrögðum þannig að málin verði betur unnin og að það leysi svo margt sem við höfum verið að gagnrýna, bæði innan og utan þings varðandi þingstörfin og þau mál sem koma hér til umfjöllunar. Að bæta hvernig mál eru unnin, hvort þau eru unnin undir flokksaga, undir þrýstingi frá ráðherrum eða hvernig sem það er nú, og að þau séu jafnvel ekki nógu vel unnin áður en þau koma í þingið. Rætt er um mikilvægi þess að frelsi þingmanna sé sem mest til að taka afstöðu gagnvart málum þó að þau komi frá þeirra eigin ráðherra, að þeir eigi að virkja krafta sína á þingi og hafa skoðanir á málum og láta ekki allt yfir sig ganga þótt þau komi frá þeirra eigin ráðherra.

Ég hef velt upp gagnrýni í umræðum um þessi mál sem einnig hefur komið fram núna, þ.e. að það sé lýðræðishalli gagnvart stjórnarandstöðu hverju sinni þar sem stjórnarmeirihlutinn fái meira vægi í umræðunni í þjóðfélaginu þar sem hann hefur ráðherra og líka varaþingmenn, jafnmarga og þá ráðherra sem fara af þingi. Meira vægi fylgir því á kostnað þeirra sem eru í stjórnarandstöðu hverju sinni. Mér finnst það ekki mjög lýðræðislegt, sama hver á í hlut. Ég hef stillt því upp þannig: Ef núverandi stjórnarflokkar eru með mikinn meiri hluta og hafa þar að auki ráðherra og fullmannað á þingi er það ekki endilega hollt lýðræðinu. Og þótt hver flokkur fengi sama atkvæðavægi vitum við að aðgengi ráðherra að fjölmiðlum er mjög mikið. Við það bætist síðan sá aukni fjöldi sem mundi vera á þingi fyrir viðkomandi flokk. Mér finnst það ekki eftirsóknarvert ef ég hugsa um lýðræðið í því sambandi. Síðan mundi fylgja þessu mikill kostnaður, það væri dýrt að fjármagna það. Þá segja menn: Lýðræði kostar sitt. Já, ef þetta væri nú lýðræði sem við kölluðum eftir! Þegar maður horfir á gallana á málinu eins og þá sem ég nefndi sér maður að þetta getur verið ólýðræðislegt.

Veltum aðeins fyrir okkur þætti kjósenda í þessu máli. Maður kýs einhvern flokk og berst fyrir hann. Oftar en ekki nær sá flokkur kannski einum þingmanni í hinum fámennari kjördæmum. Það er ekki þar með sagt að kjósendur hafi þá kosið mann númer tvö af því að einhver lenti í öðru sæti en ekki í fyrsta sæti. Síðan hafa kjósendur ekkert um það að segja að fulltrúi þeirra, sá sem þeir kusu á þing, er allt í einu orðinn halaklipptur ráðherra og ekki með atkvæðisrétt á þingi heldur varaþingmaðurinn sem er næstur á eftir honum. Mér finnst það skekkja myndina dálítið. Það má alveg hugsa um það og spá í það í þessu samhengi. Þegar flokkar á kjörtímabilinu tala við kjósendur sína, ferðast um landið í kjördæmavikum og allt það sem fylgir því að halda uppi flokksstarfi í landinu á milli kosninga, hafa þeir flokkar sem eru í stjórn líka ansi mikið vægi á þeim vettvangi með fullskipaðan þingflokk á launum plús ákveðið marga ráðherra sem geta í nafni embættis síns ferðast á kostnað þess og gert allt sem þeir vilja í þeim efnum varðandi fundi og annað og hafa svo fullskipaðan þingflokk þar að auki. Ég held að það megi ekki vanmeta þann þátt í umræðunni þegar við tölum um lýðræðishalla. Við vonumst til að svona breytingar mundu auka lýðræðið, styrkja þingið og skilji að framkvæmdarvald og löggjafarvald.

Fram kom í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að oftar en ekki eru þingmenn kúgaðir til að fara eftir því sem ráðherra þeirra vill í ýmsum málum. Þá spyr ég á móti: Hvað mundi breytast við að einhverjir varaþingmenn kæmu inn? Væru þeir þá annarrar gerðar og létu ekki kúga sig? Er eitthvert garantí fyrir því að sá hópur þingmanna sem kæmi inn sem varaþingmenn léti síður kúga sig til hlýðni, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðaði það? Það hlýtur að vera undir hverjum og einum þingmanni komið að fylgja sinni sannfæringu og hafa bein í nefinu til að vinna að breytingum á þeim málum sem viðkomandi er ekki sáttur við, hvort sem það er mál frá hans eigin ráðherra eða einhverjum öðrum.

Mér finnst þurfa að styrkja þingið og starf innan þingsins eins og það er. Það vantar virkilega mikið upp á það. Það þarf að styrkja þingið þannig að hægt sé að efla vægi Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu án þess að koma þurfi til þess að ráðherrar sitji ekki lengur á þingi sem þingmenn og komi aðeins á þing til þess að gegna embættisskyldum ráðherra og tala í þeim málum sem heyra undir málaflokk þeirra. Ég held að það sé heldur ekki endilega gott fyrir lýðræðið að ráðherrum sé einhvern veginn kippt úr sambandi við það þá hringiðu eða ólgu sem er á þingi og gerjun í ýmsum málum, að þeir verði bara ígildi embættismanna. Ég held að það sé ekki endilega hollt að vera í þeirri stöðu. Viljum við að ráðherrar séu bara embættismenn, hversu góðir sem þeir eru? Þeir eru þó kosnir lýðræðislegri kosningu til fjögurra ára, sem embættismenn eru ekki. Mér finnst að ráðherrar finnst eigi að finna hjartsláttinn í landinu og í umræðunni á þingi og hjá kjósendum í stað þess að lokast inni í einhverjum fílabeinsturni og verða ígildi embættismanna, með fullri virðingu fyrir allri þeirri stétt.

Þetta vildi ég viðra í þessum málum. En ég segi fyrir mína parta að mér finnst þessi umræða holl og góð og er alveg fylgjandi þeirri hugsun að efla sjálfstæði þingsins og að þau mál sem koma hingað frá ráðherrum séu þannig að þingið hafi sem mesta aðkomu að þeim og breyti þeim ef þörf er á, skanni þau öll í gegn og geri breytingar á þeim. Að það sé ekki nein skömm fyrir viðkomandi ráðherra þótt málin breytist, enda kom fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, svo ég vitni nú aftur í hann, að nefndir á þingi hafi tekið mál og stokkað þau algerlega upp og gert á þeim góðar breytingar. Svo ég held að þetta komi nú líka innan frá, frá þingmönnum sjálfum og þeim sem stýra nefndum, og sjálfstrausti og frumkvæði þingmanna sjálfra að taka sér meira vald, sem þeir hafa í dag samkvæmt þingsköpum, að ekki þurfi neinar breytingar til. Þeir þurfa að fá meiri stuðning, sérfræðiaðstoð og fjármuni til að styrkja starf og vinnuaðstöðu þingmanna svo þeir geti tekið sér þann sess sem þeim er ætlaður í þingsköpum og stjórnarskrá landsins.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið og finnst gott að fá svona mál fram til að taka umræðu um þau.