145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

þingsköp Alþingis.

57. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn segir nokkuð. Mér finnst tengingin sem hv. þingmaður gerir milli kjósandans og fólks sem situr á framboðslista vera meiri en ég hafði hugsað út í. Það er búið að kjósa fólk, það er efst á listum og fer inn á þing og síðan, samkvæmt goggunarröðinni, fara þeir sem eru efstir á lista í úrvalsdeildina og setjast á ráðherrabekkinn.

Þá finnst mér hv. þingmaður vera að segja að kjósandinn sé búinn að missa sinn fulltrúa, að það komi einhver annar inn sem ekki sé jafn gildur fulltrúi. Ég verð að segja fyrir mig að mér finnst svolítið erfitt að setja mig inn í þetta og velti því fyrir mér — persónukjör er reyndar annað áhugamál mitt, að fólk eigi rétt á að velja fólk á lista — hvort það svarar ekki þessari spurningu frekar en það að þingmaður verði ráðherra og láti af þingmennsku og þá missi fólk fulltrúa sinn? Ég næ því ekki alveg, ég verð að segja það, virðulegi forseti.