145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

leiðsögumenn ferðamanna.

28. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um leiðsögumenn ferðamanna. Flutningsmenn þessa frumvarps eru Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Bjarnason, Haraldur Einarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Páll Jóhann Pálsson og Kristján L. Möller.

Ég ætla aðeins að renna yfir helstu greinar frumvarpsins. Þær eru stuttar og skýra málið nokkuð vel.

Í 1. gr. segir:

Rétt til að kalla sig leiðsögumann ferðamanna hefur sá einn sem til þess hefur leyfi Ferðamálastofu. Sama á við um erlend starfsheiti sömu merkingar.

Í 2. gr. um skilyrði starfsleyfis segir meðal annars að leyfi samkvæmt 1. gr. megi aðeins veita:

a. þeim sem lokið hafa leiðsögunámi hérlendis sem uppfylla kröfur námskrár um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál,

b. þeim sem hafa haft leiðsögu ferðamanna hérlendis að aðalstarfi í samtals þrjú ár, enda sýni þeir með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi samkvæmt lið a og

c. þeim sem falla undir 2. gr. laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.

Í 3. gr. um hæfnisprófið kemur fram að Ferðamálastofa beri ábyrgð á hæfnisprófi samkvæmt 2. gr. Ferðamálastofa getur með samningi falið öðrum að sjá um hæfnispróf.

Hér er ákvæði til bráðabirgða:

Þrátt fyrir 2. gr. má veita þeim leyfi samkvæmt 1. gr. sem lokið hafa leiðsögunámi á framhalds- eða háskólastigi hérlendis sem ekki uppfylla skilyrði a-liðar 2. gr., enda hafi þeir sótt um námið fyrir gildistöku laga þessara og sýnt með hæfnisprófi að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ljúka leiðsögunámi samkvæmt a-lið 2. gr. Ákvæði 3. og 4. gr. eiga við um hæfnispróf samkvæmt þessu ákvæði.

Hér er stutt greinargerð sem ég mun fara yfir á eftir en ég ætla aðeins að lesa athugasemdir sem fylgja þessum greinum. Þær skýra þetta líka svolítið betur.

Um 1. gr. segir:

Í ákvæðinu felst að starfsheitið leiðsögumaður ferðamanna er lögverndað. Ákvæðið eitt og sér takmarkar ekki heimild annarra en leiðsögumanna ferðamanna til að veita ferðamönnum leiðsögu heldur aðeins til að nota það starfsheiti. Lögin geta þó greitt fyrir því að slíkur áskilnaður sé gerður á öðrum grunni. Til dæmis gætu ábyrg fyrirtæki í ferðaþjónustu áskilið að einstaklingur sem hefði starfsleyfi samkvæmt 1. gr. laganna skyldi leiða allar ferðir á sínum vegum í óbyggðir eða á viðkvæm náttúruverndarsvæði og þannig stuðlað að öryggi ferðamanna og góðri umgengni við náttúru landsins.

Til að taka af allan vafa er tekið fram í síðari málslið greinarinnar að ákvæðið taki til erlendra starfsheita sömu merkingar. Átt er við erlend samheiti leiðsögumanns ferðamanna. Þeim einum sem hefði leyfi samkvæmt 1. gr. væri því til dæmis heimilt að nota enska starfsheitið „tourist guide“ hérlendis.

Ákvörðun Ferðamálastofu um veitingu leyfis er stjórnvaldsákvörðun. Um hana gilda því stjórnsýslulög, nr. 37/1993, samanber 1. málslið 2. mgr. 1. gr. þeirra laga, þar á meðal 1. mgr. 26. gr. um kæruheimild til æðra stjórnvalds.

Um 2. gr. segir:

Í ákvæðinu er mælt fyrir um skilyrði leyfis samkvæmt 1. gr. Skilyrðunum er ætlað að tryggja að þeir einir fái leyfi til að kalla sig leiðsögumenn ferðamanna sem hafi tiltekna lágmarksþekkingu og -færni til að styðja við gæði ferðaþjónustu, öryggi ferðamanna og góða umgengni við náttúru landsins. Ráðgert er að sótt verði um leyfi til Ferðamálastofu sem meti hvort skilyrði 2. gr. séu uppfyllt.

Gert er ráð fyrir því sem meginreglu að umsækjendur hafi lokið leiðsögunámi sem uppfyllir kröfur námskrár um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál, samanber a-lið greinarinnar. Núgildandi námskrá um efnið er námskrá menntamálaráðuneytisins fyrir leiðsögunám frá 2004. Ákvæðið tekur þó líka til náms sem uppfyllti á viðkomandi tíma kröfur eldri námskrár um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fór með fræðslumál. Sama á við um námskrár sem síðar koma til.

Í b-lið er heimild til að veita leyfi samkvæmt 1. gr. á grundvelli tiltekinnar starfsreynslu, enda sýni umsækjandi með hæfnisprófi að hann búi yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að uppfylla skilyrði a-liðar. Með starfi við leiðsögu ferðamanna er átt við starf af því tagi sem leiðsögunámi samkvæmt a-lið er ætlað að búa mann undir. Umsækjandi verður að hafa haft skattskyldar tekjur af leiðsögu, samanber 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Leiðsaga án endurgjalds teldist því ekki til starfa við leiðsögu. Umsækjandi verður að hafa unnið við leiðsögu ferðamanna í meira en hálfu starfi til að teljast hafa haft hana að aðalstarfi. Ekki er gerð krafa um að störf við leiðsögu ferðamanna hafi verið samfelld, enda algengt að menn vinni aðeins hluta hvers árs við leiðsögu ferðamanna.

Ákvæði c-liðar er ætlað að gæta samningsskuldbindinga Íslands, m.a. vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Að öðru leyti en leiðir af þessum lögum fer um leyfisveitingar samkvæmt c-lið eftir ákvæðum laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010, og stjórnvaldsfyrirmæla sem sækja stoð í þau lög.

Örstutt um 3. gr.:

Í ákvæðinu felst að það er á ábyrgð Ferðamálastofu að tryggja að þeim sem sækja um leyfi samkvæmt 1. gr. á grundvelli b-liðar 2. gr. bjóðist að taka það hæfnispróf sem þar er mælt fyrir um. Sama á við um hæfnispróf fyrir þá sem sækja um leyfi samkvæmt 1. gr. á grundvelli c-liðar 2. gr. þegar við á. Ferðamálastofu er heimilt að fela öðrum aðila að undirbúa og framkvæma hæfnispróf, en ber þá engu að síður ábyrgð á því að forsvaranlega sé að málum staðið.

Gert er ráð fyrir að hæfnisprófið taki mið af þeim kröfum sem gerðar eru í námskrá um leiðsögunám frá því ráðuneyti sem fer með fræðslumál sem er í gildi hverju sinni. Eðlilegt er að Ferðamálastofa hafi samráð við það ráðuneyti sem fer með fræðslumál um efni prófsins. Hæfnispróf sem þeir sem falla undir c-lið 2. gr. gangast undir verður að taka mið af þeim reglum sem gilda um hæfnispróf samkvæmt lögum nr. 26/2010 og stjórnvaldsfyrirmælum sem sækja stoð í þau lög.

Frumvarpinu fylgir örstutt greinargerð:

Frumvarp þetta var áður flutt á 144. löggjafarþingi, 642. mál. Með því er lagt til að starfsheitið leiðsögumaður ferðamanna verði lögverndað. Markmið þess er að tryggja að þeir sem beri það starfsheiti hafi ákveðna lágmarksþekkingu og -færni til að styðja við gæði ferðaþjónustu, öryggi ferðamanna og góða umgengni við náttúru landsins.

Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir efnahagslega afkomu þjóðarbúsins hefur vaxið með ógnarhraða á síðustu árum. Nú er svo komið að greinin skapar mestu gjaldeyristekjur þjóðarinnar, rúman milljarð að jafnaði hvern dag. Vaxtarverkir greinarinnar hafa komið fram og mikilvægt er að unnið verði að uppbyggingu greinarinnar með samstilltu átaki ferðaþjónustunnar og ríkisvaldsins.

Hluti af betri umgjörð ferðaþjónustunnar er hæft starfsfólk sem sinnir þjónustu við ferðamenn. Leiðsögumenn eru einn mikilvægasti hlekkurinn í móttöku erlendra ferðamanna til að kynna land og þjóð, gæta öryggis þeirra og varðveita viðkvæma náttúru á ferðum þeirra um landið. Flestir erlendir ferðamenn sækja í fjölbreytta, óspillta og viðkvæma náttúru landsins þar sem þekking og reynsla vel menntaðra leiðsögumanna getur skipt sköpum þegar álagið eykst og ferðamennirnir eru kröfuharðari um örugga og þekkingarhlaðna leiðsögn.

Öryggi ferðamanna á viðkvæmum og hættulegum stöðum er ábótavant eins og dæmi á undanförnum vikum og mánuðum hafa sannað. Þess vegna er þekking og reynsla leiðsögumanna einn mikilvægasti öryggisþátturinn í móttöku erlendra ferðamanna og leiðsögn þeirra um landið. Menntun og þekking leiðsögumanna er einn mikilvægasti þátturinn í að tryggja öryggi og velferð ferðamanna sem sækja landið heim. Fagmenntaðir leiðsögumenn hafa til að bera þekkingu og hæfni til að lesa í margbreytileika náttúrunnar, þekkja þær hættur sem kunna að blasa við ferðamönnum við jökla, ár, jarðhitasvæði, við strendur landsins, á hálendinu, og þeir kunna að lesa í rysjótt veðurfar, ekki síst á öræfum og í nálægð fjalla.

Fagmenntaðir leiðsögumenn þekkja sögu, menningu og daglegt líf á Íslandi og geta gefið greinargóða mynd af landi og þjóð sem er lykill góðrar leiðsagnar og fagmennsku í ferðaþjónustunni. Samkvæmt frumvarpinu eru fagmenntaðir leiðsögumenn þeir sem hafa útskrifast úr skólum sem kenna leiðsögn samkvæmt námskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fjöldi fólks er þó að störfum sem leiðsögumenn án þess að hafa aflað sér menntunar á því sviði og hefur jafnvel starfað á þessum vettvangi um árabil. Með þessu frumvarpi er tryggt að því fólki gefist kostur á að fara í raunhæfnimat þannig að það geti hlotið viðurkenningu og fengið að bera heitið leiðsögumaður samkvæmt lögum þessum ef frumvarpið verður samþykkt. Það tekur einnig til þeirra sem lokið hafa námi frá skólum sem ekki hafa kennt samkvæmt námskrá menntamálaráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Mörg lönd Evrópu sem byggja stóran hluta afkomu sinnar á ferðaþjónustu hafa lögverndað starf leiðsögumanna. Þar eru sérstök vernduð landsvæði, borgar- og bæjarhlutar lokaðir fyrir hópum án fylgdar löggiltra leiðsögumanna. Má nefna ríki eins og Frakkland, Austurríki, Spán, Kýpur, Grikkland, Ungverjaland, Ítalíu, Litháen, Möltu, Pólland, Rúmeníu, Slóveníu, Slóvakíu og Króatíu. Sambærilegir staðir á Íslandi gætu verið þjóðgarðarnir okkar, jöklar og víðerni hálendisins. Við vinnslu þessa frumvarps vann flutningsmaður mjög náið með Félagi leiðsögumanna og telur hann að með framgangi frumvarpsins og samþykkt þess verði treystur einn af mikilvægustu hlekkjum í keðju ferðaþjónustunnar sem stöðugt sækir í sig veðrið. Við viljum byggja áfram upp af þeim metnaði sem á að einkenna alla móttöku og þjónustu við erlenda ferðamenn sem vilja sækja landið heim.

Ég legg til að frumvarpinu um lögverndun starfs leiðsögumanna verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.