145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

leiðsögumenn ferðamanna.

28. mál
[18:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleiðinguna í þessu máli. Ég verð að taka undir það með honum að ferðaþjónustan sem við tölum mjög oft um á þingi er orðin stærsti atvinnuvegurinn okkar. Það kemur meðal annars fram í Kjarnanum að nýjustu spár geri ráð fyrir að gjaldeyrisinnspýtingin verði í kringum 400 milljarðar á þessu ári. Þar er ekki um að ræða neina smáræðispeninga. Í þessu samhengi höfum við líka rætt mikið um innviðina, hvernig fara beri um landið o.s.frv. sem þetta frumvarp tekur að hluta til á og þess vegna þurfum við að skoða málin heildstætt.

Ég hef einmitt velt mikið fyrir mér málinu með leiðsögumenn. Þegar maður hefur sjálfur farið víða erlendis hefur innlendur leiðsögumaður verið með þeim erlenda, t.d. þeim íslenska eins og þegar maður hefur farið í skipulagðar ferðir með íslenskri ferðaskrifstofu, þannig að það er allur gangur á þessu. Spurningin er hvað leiðsögn er, hvað fararstjórn og hvað hópstjórn. Það er margs konar undir, ekki einungis það sem mér finnst hér verið að tala um, og spurning er hvort við þurfum að skoða þetta út frá löggjöfinni í heildrænu samhengi.

Í því sambandi þurfum við að velta fyrir okkur til hvers við viljum hafa leiðsögn og hvaða tilgangi hún eigi að þjóna. Hv. þingmaður fór aðeins yfir það frá sínu sjónarhorni. Frumvarpið er samið í samráði við leiðsögumannafélagið.

Í sjálfu sér er vert að skoða að fyrirbærið leiðsögn er ekki skilgreint. Það er til Evrópustaðall um leiðsögunám en ekki um leiðsögnina sem slíka. Við Íslendingar höfum samþykkt þennan Evrópustaðal en hann er ekki enn kominn til framkvæmdar.

Við erum búin að ræða mikið um ferðaþjónustuna, innviðina og annað slíkt og ráðherra ferðamála ræddi hér meðal annars um gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, Vakann, ágætt að draga hann aðeins fram. Við tókum hann erlendis frá og höfum lagað hann að íslenskum aðstæðum. Eins og við vinstri græn höfum talað drjúgt um er náttúran og orðspor landsins það sem ferðamenn leita fyrst og síðast í og ferðaþjónustan tekur undir það með okkur. Þau fyrirtæki sem standa fremst í flokki hvað varðar að sýna umhverfi og nærsamfélagi sínu ábyrgð eru þau fyrirtæki sem ferðamenn leita frekar til og nokkuð sem við þurfum að gæta að, bæði þegar kemur að þeim gæðum og því öryggi sem við höfum rætt töluvert á þingi undanfarnar vikur. Það eru stóru þættirnir í framtíð ferðaþjónustunnar.

Hér er talað um að meta leiðsögumennskuna eða við gætum gert það út frá þessum Vaka til að efla trúverðugleika þjónustunnar. Við þurfum að sjá til þess að fólk beri virðingu fyrir þeirri sérstöðu sem við höfum, og þeirri þjónustu sem hún er, og að við sjálf setjum hana í forgrunn.

Í 1. gr. er talað um að starfsheitið sé lögverndað. Ég var á þingi þegar mitt starfsheiti, náms- og starfsráðgjafi, var lögverndað og mér fannst það afskaplega ánægjulegt. Það er allt í lagi að starfsheitið eigi að vera lögverndað eða háð leyfi Ferðamálastofu en síðan getum við velt fyrir okkur hvort einhver sundurliðun þyrfti að vera í gangi um að það væri mjög skýrt að leiðsögumaður ferðamanna gilti um mismunandi þætti leiðsagnar. Erum við að tala um leiðsögn á stöðum? Erum við í söfnum? Erum við í gangnaleiðsögn eða hvað er það sem við erum að gera? Erum við að leiðsegja um hálendið? Eru allir til þess bærir sem fara í gegnum leiðsagnarnám? Það er auðvitað alls konar leiðsögn, hvort sem það er í veiði, þjóðgörðum, fjöllum eða hvað það er, og kallar á mismunandi aðferðafræði og ólíka gæðavottun. Við þurfum að huga að því að löggjöfin taki mið af því.

Kannski þarf líka að kveða með reglugerð á um það hverju þessar mismunandi leiðsagnir yrðu háðar og svo þurfum við auðvitað að hafa fyrst og fremst í huga öryggi ferðamanna hvar svo sem þeir ferðast um landið okkar.

Mér finnst 2. gr. mikilvægust í sjálfu sér, þetta með námskrána. Við leggjum hér til að nám út frá einhverri tiltekinni námskrá verði lögverndað. Gert er ráð fyrir því að þeir sem fá leyfið hafi lokið námi samkvæmt þessari námskrá eða hafi sambærilega starfsreynslu til þriggja ára og geti samkvæmt því sannað hæfni sína. Í 2. gr. er kveðið á um að lögin varði líka starfsemi erlendra þegna hér á landi, þ.e. erlendra leiðsögumanna.

Við þurfum líka aðeins að velta fyrir okkur að það er hægt að fara í nám í leiðsögn í Leiðsöguskóla Íslands sem heyrir undir Menntaskólann í Kópavogi, Símenntun Háskólans á Akureyri sem kennir reyndar, að mér skilst, samkvæmt einhverju samkomulagi við Leiðsöguskólann, Endurmenntun Háskóla Íslands, Ferðamálaskóla Íslands og Keili. Í raun er engin sameiginleg námskrá í gildi. Þessir skólar kenna ekki samkvæmt sameiginlegri námskrá og þá velti ég fyrir sér hvert við erum að stefna. Erum við þá að segja að það sé bara einn skóli, Leiðsöguskóli Íslands, sem verði til þess bær að útskrifa nemendur? Það hlýtur þá að þurfa að fara í gegnum allt kerfið. Eða ætla þessir skólar að taka höndum saman og samræma námskrár sínar?

Í námskránni um framhaldsskóla sem var numin úr gildi 2011 var hverri námsbraut framhaldsskóla gert að senda námskrá til staðfestingar ráðuneytis en mér er ekki kunnugt um að Leiðsöguskóli Íslands hafi sent slíka tillögu til ráðuneytisins sem þýðir að ekkert slíkt er í neinu ferli. Frumvarpið byggir hins vegar töluvert á því.

Endurmenntun Háskóla Íslands kennir samkvæmt námslýsingu sem fagráð leiðsögunáms hefur umsjá yfir en það hefur enga stjórnsýslustöðu. Ferðamálaskóli Íslands og Keilir kenna ekki samkvæmt námskrá eftir því sem fullyrt er, a.m.k. ekki sem er þá samræmd eða eitthvað sem menntamálaráðuneytið gæti komið að.

Mér skilst að að mati Félags leiðsögumanna séu ekki aðrir fullgildir leiðsögumenn en þeir sem hafa lokið námi frá Leiðsöguskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands. Þess vegna þurfum við, eins og ég sagði áðan, að kanna það og velta fyrir okkur hvað sé viðurkennt og hvað löggilt í þessum námskrám og hjá þeim aðilum sem kenna þetta nám í dag. Við verðum líka að velta því upp hvort Alþingi geti samþykkt svona frumvarp þar sem eru ekki skilgreiningar á löggiltri eða viðurkenndri námskrá.

Í b-lið er heimild til að veita leyfi samkvæmt 1. gr. á grundvelli tiltekinnar starfsreynslu. Þá sýnir umsækjandi á hæfnisprófi að hann búi yfir tiltekinni færni og þekkingu sem þarf. Um það er í sjálfu sér það sama að segja, hæfnisprófið hlýtur þá að byggja á þeirri námskrá sem viðkomandi fór í gegnum eða hvað það er. Auðvitað hlýtur alltaf eitthvað að liggja til grundvallar öllu námi þótt það sé ekki endilega viðurkennt af ráðuneyti menntamála. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að finna þau viðmið sem við ætlum að nota þegar hæfnisprófin verða svo lögð fyrir.

Í c-liðnum eru erlendu leiðsögumennirnir. Mér var sagt að í Egyptalandi þurfi maður að hafa innlendan leiðsögumann, eins og ég nefndi áðan, í hverri rútu sem ferðast með erlenda ferðamenn. Erlendum ferðamönnum er meira að segja óheimilt að ferðast um landið nema í skipulögðum rútuferðum en þar er þrátt fyrir allt eingöngu leiðsagt á ensku. Í Grikklandi er skylt að hafa innlendan leiðsögumann í skipulagðri rútuferð en þar má erlendur leiðsögumaður segja frá einhverju markverðu á tungumáli ferðamanna, einhverjum söguslóðum. Á báðum þessum stöðum er samt skylt að innlendi leiðsögumaðurinn tali ensku en ekki að hann tali einhver önnur tungumál þannig að hann geti leiðsagt á þeim.

Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við viljum taka á þessum aðilum. Eins og ég sagði er þetta mismunandi eftir löndum eins og hér var líka farið yfir. Við þekkjum alveg dæmi þess þegar heilu rúturnar koma með Norrænu, þær koma með leiðsögumenn með sér og þær koma með mat og vistir og guð má vita hvað. Það er bara allur pakkinn. Þetta er eitt af því sem við þurfum líka að taka á.

Mér hefur í það minnsta þótt eðlilegt að íslenskur leiðsögumaður þurfi að vera með, ég tala ekki um þegar farið er um viðkvæm svæði eins og hálendið og okkar afar viðkvæmu náttúru. Ég held að frumvarpið nái kannski ekki alveg yfir það sem ég hef aðeins verið að rekja og mér hefur fundist þurfa að vera, þ.e. að námskráin sé samræmd, að henni verði skilað inn af hálfu þessara aðila og/eða að ráðuneyti þurfi að setja í samráði við þessa aðila námskrá um að þetta séu viðmiðin, þetta sé það sem við ætlum að segja að einstaklingur þurfi til að fá stimpilinn löggiltur leiðsögumaður. Eins og gerðist og ég vitnaði til áðan með náms- og starfsráðgjöfina fengu þeir sem höfðu numið eftir gömlum fræðum eða því sem áður var réttindin eða lögverndunina út frá því en svo voru sett einhvers staðar mörk sem sögðu: Héðan í frá er þetta breytt.

Ég vona að atvinnuveganefnd skoði málið með opnum huga af því að mér finnst mikilvægt að leiðsögumannsstarfið verði lögverndað. Mér finnst svo mikið undir í náttúru landsins, ég tala nú ekki um að leiðsögumenn, eins og aðrir sem koma að ferðaþjónustu, skila auðvitað heilmiklu í þjóðarbú okkar. Við þurfum að halda vel utan um þá um leið og við gerum til þeirra nauðsynlegar kröfur.

Hugmyndin að baki þessu frumvarpi er góð, en mér finnst að við þurfum að velta upp þeim vinklum sem ég hef hér rakið.