145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka aðeins þátt í þessari umræðu. Í grundvallaratriðum erum við hv. þingmaður ósammála yfir höfuð um að þetta eigi rétt á sér þrátt fyrir að hér sé verið að reyna að draga upp þá mynd að utanumhaldið og aðhaldið og allt sé eins og best verður á kosið. Þetta virkar á mig ekkert ósvipað og brennivín í búðir, þetta er bara eitthvað sem mér hugnast alls ekki. Ég er ekkert ein um að finnast það, held ég.

Ég get tekið undir að það gætir tvískinnungs í umræðu um þessi mál. Ég held að okkur dyljist það ekkert. Við getum rætt um Rauðakrosskassana, Happdrætti Háskólans, spilasalina og allt það. Það breytir því ekki að mér finnst það ekki réttlæta að setja á stofn eitthvað sem heitir spilahallir.

Á síðasta kjörtímabili reyndi hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem þá var innanríkisráðherra, að leggja fram lagafrumvarp þar sem undirstaðan var að koma með langtímaáætlun um hvernig mætti koma böndum á þessi mál sem við vitum auðvitað að hafa lagt líf margra og fjölskyldna í rúst. Það er ekkert launungarmál. Hugmyndin með því frumvarpi var að reisa skorður við spilastarfsemi og færa hana með tíð og tíma í fyrirkomulag sem væri ekki eins áreitið. Áreitið í umhverfinu er jú eitt af því sem skiptir máli í þessu sambandi og hefur komið fram, segja þeir sem eiga við spilafíkn að etja. Með frumvarpinu stóð líka til að reyna að heimila takmarkaða netspilun í höndum innlendra aðila. En eins og við þekkjum náði frumvarpið ekki fram að ganga.

Ég tek undir með þingmanninum þegar hann sagði áðan að hvort sem þetta frumvarp næði í gegn á þessu þingi eða ekki væri nauðsynlegt að setja utan um þessi mál einhverja lagaumgjörð. Um það erum við sammála. Það var reynt, eins og ég segi, á síðasta kjörtímabili, og gekk ekki eftir.

Mér finnst að þegar verið er að réttlæta spilakassana og allt það sem á að vera styrktar tiltekinni góðgerðarstarfsemi, hvort sem það er Rauði krossinn eða eitthvað annað, megum við ekki gefast upp í þessum málum því að við vitum að fjárhættuspil svipta þá einstaklinga frelsinu sem þeim ánetjast. Það er eitthvað sem við viljum koma í veg fyrir. Ég horfi á þetta út frá þeim þætti. Hv. þingmaður sem er 1. flutningsmaður horfir á þetta út frá öðrum vinklum. Það er eins og það er. Það er eins og með brennivín í búðir, þar er lýðheilsuvinkillinn í fyrsta, öðru og þriðja sæti hjá mér áður en ég horfi á frelsi einstaklingsins til annarra athafna. Það er ekkert ósvipað með þetta mál.

Ég get tekið undir það að fólk getur ánetjast öllu mögulegu, hvort sem það er að spila í lottó vikulega eða hvað það nú er. En að segja að þess vegna eigum við að leyfa allt finnst mér ekki vera góður málatilbúnaður og réttlætir þetta ekki. Eins og hv. þingmaður rakti eru það ungir karlmenn sem eru í ákveðinni hættu, meira en aðrir. Þá erum við svolítið að gera út á einstaklinga sem eru í sjálfu sér ekki sjálfráðir gjörða sinna.

Ef við tölum aftur um happdrættin þá taka þau kannski lítið af mörgum, en spilakassar taka mikið af sumum og stundum allt af þeim.

Árið 2011 voru kynntar niðurstöður rannsóknar þar sem spilavandi var skoðaður. Í framhaldi af því, eins og ég sagði, var verið að reyna að vinna lagafrumvarp sem náði ekki fram að ganga. Hv. þingmaður kom inn á þessar niðurstöður áðan en þær voru kynntar af dr. Daníel Þór Ólafssyni, dósent við sálfræðideild háskólans, sem vann rannsóknina fyrir ráðuneytið. Hann vann líka sams konar rannsókn árin 2005 og 2007 þar sem valdir voru ríflega 3.000 einstaklingar, tilviljunarkennt, á aldrinum 18–70 ára. Svör fengust frá tæplega 1.900 manns, 1.000 konum og tæplega 900 körlum. Þar kom fram að 2,5% þjóðarinnar á þeim tíma töldust eiga við spilavanda að etja, þ.e. í kringum 4.000–7.000 Íslendingar á aldrinum 18–70 ára áttu í verulegum vanda. Það var aukning á milli þessara tveggja ára, 2005 og 2007 og í rauninni er ekki ólíklegt að tölurnar hafi hækkað því eins og hv. þingmaður hefur fært rök fyrir hefur spilamennska aukist mikið á netinu. Það er spurning hvernig við ætlum að ná utan um það, en eins og ég segi þá finnst mér það ekki réttlæting á því að við opnum alveg upp á gátt fyrir þetta.

Það er þekkt staða að karlar spila frekar peningaspil en konur á meðan flokkahappdrætti eru vinsælli meðal kvenna. Karlar spila líka meira á erlendum síðum en það virtist ekki í þessari rannsókn vera munur á milli karla og kvenna á innlendum síðum.

Mér finnst það verulega athugunarvert að opna frekar á spilamennsku í ljósi vandans sem margir einstaklingar eiga við að etja og við höfum ekki almennileg úrræði í dag fyrir það fólk og því tel ég að þetta mál sé til þess fallið að gera vandann stærri.

Þá spyr maður sig aftur: Hverju er verið að fórna og hvað fáum við í staðinn? Mér finnst að við eigum frekar að gera betur fyrir það fólk sem á við þennan vanda að etja en að horfa á málin út frá ákveðnu gróðasjónarmiði. Hér hefur verið nefnt að þetta sé gott fyrir ferðamennskuna. En það getur líka verið ágætt að slíkt bara fyrirfinnist ekki á Íslandi. Það getur líka verið aðlaðandi að við séum öðruvísi samfélag en mörg önnur samfélög. Við þurfum ekki að vera með allt eins og aðrir, þá er ég að tala um gagnvart hinum erlenda ferðamanni og varðandi ráðstefnuhald og annað. Mér finnst að við eigum miklu frekar að selja þá ímynd sem við eigum og vera ánægð með það fremur en að búa til eitthvað sem fæst í útlöndum.

Mér finnst að ef við erum að velta fyrir okkur lagasetningu þá eigum við fyrst og síðast að hafa að leiðarljósi að horfa á hagsmuni þess fólks sem hefur orðið spilafíkn að bráð og skoða lög og reglugerðir sem gilda nú þegar um þá starfsemi sem er lögleg, en skoða líka þá sem er ekki lögleg og við þurfum að ná utan um. Ég vona að við berum gæfu til að gera það frekar en eitthvað annað.

Í tengslum við niðurstöður rannsóknarinnar árið 2011 kynnti Kristófer Már Kristinsson þær aðgerðir sem hann var að kanna fyrir hönd ráðuneytisins, þ.e. hvað þyrfti að gera. Það var að skipuleggja ólík meðferðarúrræði þannig að þau stæðu fíklum til boða og væru sýnileg. Aðgerðirnar fólust líka í virku eftirliti með peningaspilun og gagnaöflun og að setja lög eða reglur sem tryggðu ábyrga spilun á vegum þjóðþrifafyrirtækja. Þá komum við væntanlega að Rauðakrosskössunum og öðru því um líku, sem ég er ekkert endilega hlynnt og mundi frekar vilja snúa frá.

En við þurfum að setja reglur um peningaspil á netinu. Ég held að við séum sammála um að við þurfum að reyna að ná utan um það sem okkur er kleift að gera. Við vitum líka að við náum aldrei utan um allt, það er bara þannig. En við getum ekki skýlt okkur á bak við það í lagasetningu þingsins að það sé svo margt sem fari fram á netinu sem við náum ekki utan um. Við erum núna að reyna að ná utan um það sem heitir hefndarklám og frumvarp var lagt fram um, við höfum líka talað um það sem hrelliklám, m.a. í formi þess sem kemur fram á netinu. Við vitum að við náum aldrei utan um það allt en við getum búið lagarammann til þannig að það verði auðveldara og að hefndarklám verði refsivert með einhverjum hætti. Það er ein leið.

Við þurfum að byggja þessar reglur á reynslu Norðmanna, Svía og Finna, svo dæmis séu nefnd. Við þyrftum helst að geta einskorðað netspilun við íslensk fyrirtæki. Hún yrði byggð á einkaleyfum eða einhverju slíku. Samhliða þyrftum við að huga að þörf fyrir aðgát vegna notkunar farsíma við fjarspilun.

Eins og hér kom fram þá er ungt fólk mest í hættu. Við þurfum eins og svo oft áður að efla fræðslu og upplýsingar til ungs fólks og foreldra og forráðamanna þeirra um þetta. Ég er ekki viss um að áróðursherferð sé eitthvað sem þarf, ég held að þetta þurfi að koma reglubundið inn í kennslu eins og svo margt annað, kannski inn í lífsleiknikennslu eða í samtali, þetta er svipað því að læra um fjármál og gæti verið hluti af því, eða hvað veit ég. Alla vega held ég að þetta sé eitt af því sem þarf að ræða, m.a. í tengslum við netið af því að þar er auðvitað mesta hættan eins og hér hefur komið fram.

Við þurfum að skoða takmörkun á aldri og opnunartíma. Við þurfum að reyna að búa til einhverjar aðgerðir til að takmarka ánetjun vegna spilakassa og við þurfum kannski að huga að öðrum tekjustofnum, hvort sem það eru opinberir sjóðir eða eitthvað annað, sérstaklega ef við mundum loka á kassana. Ég mundi frekar vilja fara þá leið en að heimila það sem fram kemur í þessu frumvarpi í ljósi þess sem víða hefur komið fram í könnunum. Við vitum auðvitað að flestir sem spila peningaspil gera það án vandkvæða en mér finnst að við þurfum að hugsa til þess að í þessum rannsóknum kom fram aukning milli ára sem birtist fyrst og fremst í hópi ungra karla á aldrinum 18–25 ára. Mín skoðun er sú að við eigum frekar að horfa til þess en til ferðamanna eða einhvers slíks til að reyna að græða enn meiri peninga. Ég vil ekkert frekar féfletta erlenda ferðamenn en Íslendinga. Mér finnst það ekkert sérstaklega sjarmerandi hugsun. En kannski erum við að gera það, við seljum dýran mat og allt það. En þetta er eitthvað sem við þurfum að huga að.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en mér fannst nauðsynlegt að koma hér upp og tjá hug minn í þessu máli. Við vinstri græn höfum talað gegn þessu máli og fært fyrir því mörg og mikilvæg rök. Hv. þm. Ögmundur Jónasson lagði fram frumvarp á síðasta kjörtímabili þar sem okkar afstaða birtist. Hann hefur verið manna duglegastur í okkar röðum við að tala um þetta. Ég vona að hann eigi eftir að taka þátt í þessari umræðu. Það er alltaf gott að fá góðan debatt um svo mikilvæg mál eins og hér er til umfjöllunar.