145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Hann segir að ræða mín styðji málið. Ég byrjaði á því að segja í grundvallaratriðum værum við ósammála vegna þess að ég vil ekki leyfa spilahallir, hvort sem það er einkaframkvæmd eða ríkisframkvæmd. Hv. þingmaður segir að rannsóknir sýni að einokun sé til bóta. Ég efast ekki um það og hér er vitnað í ÁTVR-frumvarpið. En við mundum heldur ekki leyfa brennivín í dag þegar við vitum um afleiðingar neyslu þess, það er mín skoðun, að minnsta kosti ekki í sama mæli og nú og með þá þekkingu sem við höfum í dag. Ef við værum að byrja á núllpunkti mundum við ekki leyfa það.

Ég tel ekki brýna nauðsyn til að koma þessari starfsemi á laggirnar og það er kannski það sem skiptir máli. Mín rök hnigu fyrst og fremst í þá átt að því að við ráðum takmarkað við þann vanda sem við er að glíma nú þegar vegna þess sem þó hefur verið heimilað hér og sem komið hefur með internetinu. Ég er alveg meðvituð um það.

En eins og varðandi hrelliklámið getum við reynt er að ná utan um þessi mál með einhverjum hætti eins og þar á að gera, frekar en að bakka alveg út úr þessu, að opna allt upp á gátt og leyfa það bara af því að við teljum okkur ekki nú þegar ná utan um þessi mál eins og best verður á kosið. Það þýðir bara að við þurfum að laga regluverkið.

Það dugar mér ekki að þessi starfsemi eigi að vera undir eftirliti hins opinbera og hún verði eitthvert einokunarfyrirbæri, vegna þess að í hjarta mínu og í grunninn er ég ósammála því að spilahallir rísi á Íslandi.