145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:40]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mig langar að staldra við stóru spurninguna í þessu máli sem er hvernig við vinnum gegn spilafíkn á netinu. Nú er ég fylgjandi þessu frumvarpi og tel að það muni verða til bóta og til að hjálpa þeim sem eru vissulega með spilavanda. Við getum fundið úrræði fyrir það fólk sem eru ekki til staðar í dag, af því að þessi starfsemi er neðan jarðar.

Mig langar að velta þessu upp af því að þingmaðurinn sagði að hægt væri að reyna að einskorða netspilun við íslensk fyrirtæki. Þá velti ég fyrir mér: Hvernig getum við einskorðað netspilun við íslensk fyrirtæki ef hún er ekki heimiluð? Ég held, án þess að ég hafi mikið ígrundað það heldur aðeins hlustað á umræðuna í kvöld, að þetta frumvarp gæti orðið fyrsta skrefið í því að heimila einu fyrirtæki, en ekki opna kerfið upp á gátt, að vera með svona spil. Þar af leiðandi væri hægt að vinna með það og þróa hvernig við getum haft sambærileg fyrirtæki á netinu, sambærileg hús á netinu þar sem þetta hús tekur eingöngu við „hardcore“ peningum. Og síðan hvernig við getum ráðið við rafpeninga sem flæða í miklu magni út úr landinu.