145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að tala um raforkumál á Vestfjörðum. Það var ágætisfundur á mánudaginn var á Ísafirði um framtíðarhorfur í uppbyggingu raforkumála á Vestfjörðum og kom það til vegna þess að einkaaðilar hafa sýnt mikinn áhuga á því að virkja við Djúpið og Hvalárvirkjun. Farið var vítt og breitt yfir það hvernig málin stæðu varðandi raforkuafhendingaröryggi á Vestfjörðum og möguleika fyrirtækja á að byggja sig upp.

Vissulega yrði það mikil búbót að fá viðbótarorku inn á svæðið en undirstaða þess er að það verði hringtenging á Vestfjörðum. Öll þau áform sem uppi eru um að virkja Hvalá, sem mundi framleiða um 50 megavött, og aðrar minni virkjanir við Djúpið sem kæmu líka til viðbótar — undirstaða þess að það nýtist Vestfirðingum, bæði varðandi öryggi í raforkumálum og möguleika á að byggja sig frekar upp í minni iðnaði og styrkja það sem fyrir er, er að það sé hringtenging á Vestfjörðum og að grunngerðin sé í lagi. Flutningskerfið er í lagi og það stendur upp á stjórnvöld ásamt því að koma upp tengikerfi til þess að tengja Vestfirði innbyrðis í raforkumálum. Það var rætt að það tengikerfi yrði við Inndjúp og nú finnst mér það standa upp á stjórnvöld og þau skulda Vestfirðingum það að koma fram með skýr áform um að styrkja flutningskerfi raforku og hringtengingu innan Vestfjarða svo að ljóst sé að ef af þeim áformum verður að virkja Hvalá og fleiri virkjanir gagnist það Vestfirðingum en verði ekki keyrt út af svæðinu til annarra landshluta sem hafa miklu meiri aðgang (Forseti hringir.) að orku en Vestfirðir hafa haft hingað til.


Tengd mál