145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að vera talsmaður einkaframtaksins eru því settar skorður í 330 þús. manna samfélagi. Svo lengi sem ég man hafa leigubílstjórar verið þarfasti þjónn þjóðarinnar. Þeir eru góðkunningjar almennings og í mínum huga eru þeir hluti góðra almenningssamgangna í landinu. Nú er sótt að þeim með ólöglegri, svartri starfsemi.

Virðulegi forseti. Svokallaðir skutlarar bjóða þjónustu sína á fésbókarsíðu, þar er svartur markaður. Þar er auglýst að fólki sé skutlað milli bæjarhluta og þegar mér var boðið að skoða þessa síðu um daginn mátti lesa þar auglýsingu: Er með tólf kalda í bílnum. Síðan fylgdi símanúmer og staðsetning á bílnum. (Gripið fram í.) Þá eru uppi ráðagerðir um að hingað til lands komi útgerð frá Uber leigubílastöðinni. Eftir því sem ég hef best kynnt mér er mjög lágskýjað yfir þeirri starfsemi allri hvar sem á hana er litið, svo ekki sé meira sagt.

Virðulegi forseti. Eigum við að horfa upp á slíka svarta starfsemi fyrir framan nefið á okkur? Er ekki nóg að við ætlum að fylla hér allar verslanir af brennivíni heldur er boðið upp á heimsendingarþjónustu allar helgar fyrir fólk? (Gripið fram í.) Er það ekki orðið of mikið af því góða? Það vantar þá alla vega klakann og kókið ef þetta á að ganga upp. [Hlátur í þingsal.]

Ég skora hér með á lögregluna að gera eitthvað í þessu máli. Ég veit að hún er fáliðuð en þetta er mál sem þarf að taka á.