145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

vatnsveitur sveitarfélaga.

400. mál
[11:25]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvörp til laga um vatnsveitur og fráveitur. Þetta eru lítil en gríðarlega mikilvæg mál. Við skilgreinum þessa þjónustu sem grunnþjónustu. Því miður hefur verið réttaróvissa um þessi mál sem við erum vonandi að bregðast við hér þannig að viðunandi sé. Ég stend að nefndarálitinu og þakka þeim sem unnu að málinu með okkur í umhverfis- og samgöngunefnd.

Mig langar að hnykkja á nokkrum atriðum og reyna að freista þess að útskýra fleiri. Við erum að reyna að tryggja betri tengsl milli þeirra gjalda sem verið er að innheimta af veitukerfinu sem tengist mannvirkjunum okkar, tryggja tengsl milli gjaldanna og notkunarinnar.

Eins og framsögumaður sagði og segir í nefndaráliti er ljóst að ekki verða fullkomin tengsl milli þessarar þjónustu og gjaldsins af því að við mælum hana ekki beint, við erum ekki að setja upp mæla. Það hefur verið ákveðið að fara ekki þá leið því að það mundi auka kostnað til mikilla muna. Talað hefur verið um að það að setja upp vatnsmæla fyrir hvert einasta mannvirki geti kostað upp undir tvo milljarða. Það er ekki tekið upp úr neinum vasa öðrum en þeirra sem eiga mannvirkin.

Þessi tvö frumvörp eru keimlík og reynt er að ná sama markmiði. Þau eru samt í eðli sínu ólík. Mig langar að reyna að útskýra aðeins muninn á því hverjar skyldur fráveitna eru; annars vegar þeirra sem veita neysluvatni inn í byggingar og hins vegar þeirra sem veita skolpi frá mannvirkjum.

Skyldu veitna sem veita neysluvatni inn í byggingar sleppir ekki við lóðamörk. Það er skylda fráveitna að koma með heimtaug og tengja hana við vatnsinntakið. Í flestum tilvikum er heimaæðin eign veitnanna sem leggja hana inn. Þar sýnist mér vera augljósari skil milli, hvenær mannvirki tengist veitunni. Það er þegar veitufyrirtækið hefur ekki bara lagt vatn að lóðamörkum heldur lagt heimtaugina og tengt hana við vatnsinntakið. Í frárennslismálunum er það hins vegar skylda veitnanna að leggja að lóðamörkum eða rétt inn fyrir lóðamörk. Gjaldtakan mun hefjast þegar sú skylda hefur verið uppfyllt.

Annars vegar er verið að tala um að vatnsveita hafi tengt við mannvirki, sem mér sýnist að ætti að eyða allri réttaróvissu þar, þ.e. þegar mannvirkið hefur verið tengt, og hins vegar er verið að tala um að veitur, sem eiga að veita skolpi burtu, hafi lagt sínar lagnir inn fyrir lóðamörk.

Þá sýnist mér frumvörpin segja að þó að ekki sé búið að byggja, sama á hvaða byggingarstigi það mannvirki er, muni vera hægt að innheimta þessi gjöld af frárennsli. Er það sanngjarnt eða ekki? Þetta er vissulega kostnaður hjá fráveitunum, meðal annars er það stofnkostnaður. Ef lóðareigandi er að bíða lengi með að byggja upp á sinni lóð gæti sá kostnaður, m.a. fjármagnskostnaður og þau gjöld sem fráveitan fær upp í stofnkostnað, dregist um þann tíma. Þetta er kannski ósanngjarnt fyrir einhvern en ég vona hins vegar að frumvörpin eyði þessari réttaróvissu.

Í dómi Hæstaréttar segir að frístandandi bílskúr nái ekki inn í þjónustugjaldið, en það er vilji löggjafans og okkar sem stöndum að nefndarálitinu að svo sé, þ.e. að frístandandi bílskúr sé hluti af fasteign — ég kann nú ekki alveg lögfræðilegu skilgreininguna á þessum fasteignum — þannig að bílskúr verði ekki undanþeginn vatns- og fráveitugjöldum, enda yrði tiltölulega auðvelt að tengja bílskúr eða sambærileg mannvirki við vatn eða fráveitu. Það er ógerlegt fyrir veitur að hafa eftirlit með slíku, hvort búið sé að tengja eða hafi verið aftengt eða því um líkt.

Í frumvörpunum er hins vegar heimild til að óska eftir því að ákveðnir hlutar fasteignar, bílskúr eða geymsluskúrar eða annað slíkt, verði undanþegnir þessum þjónustugjöldum. Við vorum áhyggjufull yfir því að ef við reyndum ekki að taka þessa hluta mannvirkjanna inn gæti fólk allt í einu sagt: Ja, stofan mín er ekki tengd við vatn eða skolp, af hverju ætti ég að borga af henni? Hér er því verið að tryggja að verið sé að taka gjald af mannvirkjunum í heild og reyna að tryggja og styrkja þessi gjöld fráveitnanna.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, hæstv. forseti.