145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[11:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið, heldur fyrst og fremst að fagna þessu máli. Sömuleiðis finnst mér alveg þess virði að nefna við þetta tækifæri að eins og stundum er sagt vestanhafs og víðar: Réttindi þýða ekkert án vitneskju um þau. Það er alger lykilforsenda þess að við getum nýtt réttindi okkar að við séum mjög meðvituð um hver þau séu. Það þýðir ekkert annað en að byrja á barnsaldri í þeim efnum.

Að mínu mati er íslensk menning ekki komin úr réttindamenningu. Við höfum upplifað áherslur á réttindi, mannréttindi, aðallega vegna erlendra áhrifa. Það er eins og um margt annað, held ég, sökum smæðar þjóðarinnar, einangrunar hennar og einfaldlega sögulegs samhengis sem er misjafnt milli þjóða. En hér er engin djúp menningarleg meðvitund um eitthvert þrælastríð sem þurfti að gera upp, þrælahald eða eitthvað því um líkt. Það er ekki einu sinni djúp menningarleg vitund að mínu mati um vistarbandið, sem þó var alger hryllingur.

Við ættum í raun og veru að kenna í grunnskólum, að mínu mati, eitthvað sem við ættum að sjá eftir. Sömuleiðis meðferð á fólki í gegnum tíðina sem við erum í rauninni bara fyrst núna að tala opinskátt um. Ég held að við höfum sem samfélag ekki litið alveg nógu mikið í okkar eigin barm þegar kemur að réttindum af ýmsu tagi, þar á meðal fordómaleysi gagnvart minnihlutahópum og því um líkt. Enda svo sem auðvelt að vera fordómalaus í samfélagi þar sem allir eru í meginatriðum eins, allir komnir af einhverjum kristnum víkingaættum, meira og minna eins á hörund og svona. Auðvitað hefur það breyst síðastliðna áratugi, sem betur fer, það er frábær þróun. En það þýðir að réttindavitundin í íslenskri menningu er ekki jafn sterk og við kannski teljum okkur trú um að hún sé. Ég fagna því þessu máli og tel einsýnt að besta leiðin eða öllu heldur forsenda þess að tryggja réttindi til framtíðar sé að við ölum börnin okkar upp með þá grundvallarforsendu í huga að þau hafi rétt, ekki bara leyfi, heldur rétt sem er ekki hægt að veita heldur einungis taka frá manni.