145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[11:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu þar sem frá var horfið í gær um frumvarp til laga um spilahallir. Sitt sýnist hverjum í því máli eins og í svo mörgum öðrum. Ég er ein þeirra þingmanna sem er mjög andsnúin þeim hugmyndum eða vilja sem þarna kemur fram til að reisa spilahallir með þá lagaumgjörð að löglegt sé að halda úti slíkri starfsemi, þ.e. að lögleiða heimild til reksturs spilahalla. Að mínu mati eru margar ástæður fyrir því að við Íslendingar eigum ekki að fara að feta þá slóð að bjóða upp á slíkt. Viljum við verða Las Vegas eða Mónakó norðursins? Nei, ég vil ekki sjá Ísland þróast í þá áttina.

Það kom fram í máli 1. flutningsmanns, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, að þetta væri góð viðbót við afþreyingu fyrir ferðamenn. Við vitum að í könnunum sem hafa verið gerðar hefur sýnt sig að ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands vegna náttúrunnar, yfir 80% ferðamanna koma hingað vegna náttúru landsins. Mér finnst engin ástæða til að við Íslendingar eltumst við það að vera með á boðstólnum spilavíti til að trekkja að eða lokka hingað þess konar ferðamenn eða að bjóða upp á slíkt til hliðar við ráðstefnuhald, mér finnst ekki þörf á því. Auðvitað dettur manni í hug ýmis önnur starfsemi sem þrífst oftar en ekki í kringum spilavíti erlendis, vændi, jafnvel mansal og ýmiss konar glæpastarfsemi neðanjarðar sem virðist oftar en ekki verða eins konar hliðarbúgrein spilavíta, þótt auðvitað séu til undantekningar á því eins og öðru.

Í frumvarpinu er talað um að 21 árs og eldri verði heimilaður aðgangur að fyrirhuguðum spilavítum. Við þekkjum vel þann vanda sem margir glíma við í dag, spilafíkn. Spilafíkn er alvarlegt þjóðfélagsmein og ætla má að um 12 þús. Íslendingar eigi við einhvers konar sjúklega spilafíkn að glíma. Það hefur verið talað um að af þeim geti 4–5 þús. verið á aldrinum 16–20 ára. Mér finnst ekki á það bætandi. Við höfum lögleitt að vera með spilakassa sem félagasamtök hafa notið hagnaðar af. Við þekkjum hin venjulegu happdrætti sem eru í gangi og eru lögleg en það þarf ekki að bæta á þann vanda sem fyrir er, vanda einstaklinga sem eru með spilafíkn, með því að koma á fót löglegum spilavítum. Mér finnst það jafn fráleitt og að selja áfengi í almennum verslunum.

Vissulega er þetta svolítið á sömu bókina lært, að frelsið eigi að vera til alls og ekkert hugsað um afleiðingar, ekki um manneskjuna, félagslegar afleiðingar eða lýðheilsu. Mér finnst þetta vinna gegn lýðheilsu í landinu. Ég skil það þannig að þessi ríkisstjórn hafi það á stefnuskrá sinni, í stjórnarsáttmála, að vinna að aukinni lýðheilsu í landinu og ég get ekki séð að lögleiðing spilavíta sé skref í þá átt.

Ég hlustaði á ræðu hv. þm. Willums Þórs Þórssonar í gær. Þar kom fram að í dag væru ýmiss konar spilaklúbbar með neðanjarðarstarfsemi sem ríkið fær ekki tekjur af og að gott væri að færa starfsemina upp á yfirborðið og að ríkið mundi hagnast á því. Mér finnst þvert á móti að ríkið eigi að herða reglur og taka fastar og harðar á þeirri starfsemi sem er til staðar en ekki segja: Þetta viðgengst og þá skulum við bara lögleiða það. Við gætum sagt það um margt annað sem er á gráu svæði og við viljum kannski ekki sjá grassera í landinu, að best sé að lögleiða það sama hvaða vitleysa það er. Það má vel vera að erfitt sé að koma í veg fyrir ýmiss konar spila- og veðmálastarfsemi og það sé að æra óstöðugan að halda að slík starfsemi verði nokkurn tímann upprætt, en við getum gert með þetta rétt eins og annað sem við höfum ákveðið að sé ólöglegt og unnið að því að halda því eins mikið niðri og mögulegt er og eflt til þess þau verkfæri sem ríkið hefur.

Það hefur líka verið vakin athygli á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem var innanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili, lagði fram lagafrumvarp með ítarlegri langtímaáætlun um hvernig koma mætti böndum á þann vágest sem spilafíknin er og hefur vissulega lagt líf margra einstaklinga og fjölskyldna í rúst. Ég held að flestir þekki dæmi um að fólk hafi farið mjög illa út úr spilafíkn. Hugmyndin með frumvarpinu var að reisa skorður við spilastarfsemi og færa hana með tímanum inn í fyrirkomulag sem væri ekki eins áreitið og í annan stað að heimila takmörkun á netspilun í höndum innlendra aðila. Þetta frumvarp náði ekki fram að ganga. Ég tel slæmt að það hafi ekki fengið afgreiðslu hér því að við eigum ekki að gefast upp á því að glíma við afleiðingar spilafíknar og ólöglegs fjárhættuspils, sem viðgengst bæði í neðanjarðarhagkerfinu, ef maður getur orðað það þannig, og á netinu.

Við Íslendingar erum oft feimin við að vera öðruvísi en aðrir. Við vísum oft til þess að þetta sé leyfilegt í Danmörku og að vítt og breitt um heiminn þyki þetta eðlilegur hlutur. En er ekki allt í lagi að við séum ekki nákvæmlega eins og allir aðrir í efnum eins og þessum ef við teljum ekki að þetta geri Ísland eftirsóknarverðara eða mannlífið betra, heldur auki frekar á þann vanda sem fyrir er varðandi spilafíkn?

Ég vona að þetta mál fái góðar umsagnir og að horft verði á það þeim augum að við séum þar að taka mjög stórt skref frá því sem hefur þótt eðlilegt á Íslandi, sem er að leyfa ekki fjárhættuspil. Við tökum mjög stórt skref ef þetta frumvarp verður samþykkt. Það lítur kannski sakleysislega út og eins og það sé fyrst og fremst til þess skapa fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn allt árið um kring. Það er hægt að horfa á þetta með þeim gleraugum og horfa ekki á neinar hliðarverkanir eða það sem við köllum yfir okkur í þeim efnum.

Eins og ég sagði í upphafi finnst mér alls ekki að Ísland eigi að skreyta sig með þeim fjöðrum að geta boðið upp á spilavíti á borð við þau stærstu sem við þekkjum og eru ímynd spilavíta, eins og eru í Las Vegas og í Mónakó. Það getur enginn sagt mér að kringum slíkt eigi ekki eftir að þrífast alls konar starfsemi sem við erum ekki par hrifin af að fá, eins og glæpastarfsemi, vændi, mansal og ýmislegt sem þýðir ekkert að loka augunum fyrir að fylgir starfseminni og er eitthvað sem við berjumst stöðugt við og beitum öllum ráðum til að koma í veg fyrir.

Ég óttast að sá hópur sem er veikastur fyrir eigi eftir að verða viðskiptavinur spilavítanna. Ég heyrði á máli hv. frummælanda að einstaklingar gætu óskað eftir því við spilavítið að það setti sig á bannlista. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig það virkar í raun. Mundi virka fyrir alkóhólista að óska eftir því við starfsmenn vínbúðanna að vera settur á bannlista? Ég held að það sé mikil draumsýn að halda að það virki sem slíkt.

Í frumvarpinu er talað um að koma eigi með ýmis úrræði fyrir spilafíkla og vinna gegn henni með forvörnum og öðru. Til hvers að koma einhverju á sem eykur vandann og leggja síðan til að auka fjármuni til að koma í veg fyrir vandann sem skapast ef hægt er að draga úr vandanum með því að lögleiða ekki slíka starfsemi? Það ætti frekar að setja frekari hömlur og skýrari lagaumgjörð og heimildir lögreglu til að halda því sem nú er í gangi varðandi spilakassana og þau fjárhættuspil sem eru leyfð í dag, það má kannski ekki orða það þannig, en flokkahappdrætti og annað sem er leyft í dag, að setja utan um það strangan ramma og gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir spilafíkn. Það sem er í boði á netinu í dag er auðvitað heill frumskógur og ekki fyrir venjulegt fólk sem ekki þekkir þann heim að átta sig á því hvernig sá frumskógur er í raun og veru og að hægt sé að spila aleiguna frá sér á augabragði.

Ég vona að þær skynsemisraddir heyrist, bæði á Alþingi og úti í þjóðfélaginu, að þetta sé ekki sú viðbót í samfélagið sem við þurfum á að halda á þessum tímum heldur þvert á móti og að við séum ekki áfjáð í að fá hingað ferðamenn sem telja þetta vera það sem þeir þurfa til að eyða tíma sínum á Íslandi, heldur sé það náttúra Íslands sem laði þá að. Við þurfum að byggja upp innviði og gera landið í stakk búið til að taka við auknum ferðamannastraumi.