145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir eitt í ræðu hv. þingmanns; ég sé enga sérstaka þörf fyrir spilahallir. Ég sé enga sérstaka þörf fyrir þetta frumvarp. Ég hef mína gagnrýni á frumvarpið sem ég mun koma að á eftir. En ég verð að segja fyrir mig að það sem mér finnst líkt með þessu máli og áfengismálinu sem við tölum stundum um er að ég upplifi fyrst og fremst að ég styðji málið þegar ég heyri andstæðinga þess tala, vegna þess að málflutningurinn einkennist af því sem hv. þingmanni þykir kannski vera uppnefni, þ.e. forræðishyggju. Það er munur á því að hugsa um fólk eða að hugsa fyrir fólk.

Málflutningurinn virðist einkennast af því í meginatriðum að fólki sé ekki treystandi til þess að stunda þetta eða hitt og að þetta sé óhollt. Vissulega getur maður farið sér að voða af ýmsu í þjóðfélaginu. Telur hv. þingmaður að það sé hlutverk yfirvalda að passa að ekkert sé heimilt í landinu sem gæti komið einhverjum í voða? Er það afstaðan? Ef svo er vil ég bara minna hv. þingmann á að í frjálslyndu, vestrænu samfélagi, svokölluðum vestrænum lýðræðisríkjum, snýst lífið ekki bara um hollustu, það snýst líka um frelsi. Það skiptir máli. Það er ekki einhver afgangsstærð sem lýðheilsa á alltaf að trompa vegna þess að ef við förum í þá átt þá verður ekki neitt frelsi eftir. Það er bara þannig í lífinu að flest eða mjög margt í það minnsta sem er skemmtilegt er líka hættulegt. Það er engin mótsögn þar. Það þýðir ekki að við eigum að loka fyrir allt sem er á einhvern hátt skaðlegt. Ég verð að gagnrýna sérstaklega málflutninginn um hvort hér eigi allt að verða eins og í Las Vegas eða Mónakó.

Virðulegi forseti. Það eru ekki einu borgirnar í heiminum þar sem spilahallir eru leyfðar. Af hverju er hv. þingmaður ekki með Helsinki eða Tórontó á listanum? Á þetta að vera jafn ógurlegt og í Helsinki? Jafn ógurlegt og í Tórontó? Málflutningur hv. þingmanns þykir mér grafa undan málstað þeirra sem eru á móti málinu. Þá ítreka ég, virðulegi forseti, ég er ekki einu sinni algerlega hlynntur málinu sjálfur.