145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í fyrra andsvari að ég væri sammála hv. þingmanni um að ég sæi ekki þá þörf fyrir spilahallir. Ég sagði það. Ég ætla að biðja hv. þingmann um að vera ekki að ýja að því að ég sjái þá þörf fyrir slíkt þegar ég er búinn að segja mjög skýrt að ég sjái hana ekki. Fyrir mér snýst þetta ekki bara um þarfir. Ég er bara ekki þeirrar skoðunar að það eigi einungis að vera heimilt í mannlegu samfélagi sem þörf er fyrir. Mér finnst lífið vera meira og merkilegra en það.

Hv. þingmaður nefnir hér að frelsi eins geti verið helsi annars. Auðvitað getur það verið þannig, en eru það afleiðingarnar af þessu frumvarpi? Nei. Ræða hv. þingmanns gekk í meginatriðum út á það að fólk gæti ekki treyst sjálfu sér fyrir þessum spilum. Það er ekki brotið á rétti hv. þingmanns eða þess sem hér stendur með því að leyfa einhverjum öðrum að fara inn í spilahöll eða reka eina slíka. Þetta er ekki sú tegund af frelsi sem heftir frelsi annars. Þetta er einfaldlega ekki slík tegund af frelsi.

Sömuleiðis endurspeglar svar hv. þingmanns enn fremur gífuryrðatilhneigingu, að vera alltaf að ýkja málstað andstæðingsins og færa út í þvílíkar öfgar að það finnst varla lengur sá maður sem stendur fyrir það sem hv. þingmaður gagnrýnir. Ég sagði ekki að allt ætti að vera heimilt. Mér finnst það bara ekki heiðarlegt, með fullkominni virðingu gagnvart hv. þingmanni, að láta eins og ég eða nokkur maður hafi verið að segja það. Í frumvarpinu eru gríðarlegar hömlur lagðar á starfsemina. Ástæðan fyrir því er sú að hv. flutningsmenn sjálfir eru ekki þeirrar skoðunar að allt eigi að vera heimilt eða að hér eigi hlutirnir að vera eins og í Las Vegas eða Mónakó.

Það á að vera augljóst, virðulegi forseti. Mér þykir það grafa undan málstað hv. þingmanns að sýna hlutina alltaf í ýktri mynd og gagnrýna hana síðan. Það eru stundum kölluð strámannsrök. Sömuleiðis verð ég að segja að það fer hreinlega í taugarnar á mér að hér segi hv. þingmaður að ég sé líka á móti forvörnum. Forvarnir eru aðalatriðið, bæði í þessu og þegar kemur að áfengisfrumvarpinu. Allur málflutningur minn um áfengisfrumvarpið hefur sýnt fram á það, tel ég.