145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir hv. þingmaður vera óþarflega viðkvæmur fyrir því sem ég sagði í ræðu minni. Ég dreg auðvitað fram hina hliðina alveg eins og hv. þingmaður dregur fram þá hlið að ekki eigi að banna slíka hluti þó að ekki sé endilega þörf fyrir það. Auðvitað mun ég draga fram í máli mínu neikvæðu hliðarnar á þessu máli. Þegar hv. þingmaður talar um að það skaði engan að hafa slíkt þá tel ég það bara skaða til dæmis fjölskyldustefnu á Íslandi, við vitum að það eru um 12 þúsund spilafíklar í landinu, ef ekki fleiri. Hvað ætli það hafi nú haft mikil áhrif á fjölskyldulíf og framfærslu fjölskyldu þegar annar aðilinn, oftar en ekki er það nú karlmaðurinn þó að hitt sé nú líka til, er búinn að spila rassinn úr buxunum og í raun búinn að veðsetja allt sem til er, fólk hefur misst húsnæði sitt og fleira bara vegna þess sem nú er leyft varðandi spilakassana? Ég er ekkert að kokka það upp fyrir hv. þingmann, það er bara veruleiki sem hægt er að taka dæmi um. Fólk sem þekkir til í þessum efnum veit að það er sannleikur.

Þess vegna segi ég: Við eigum að búa til lagaumgjörð sem þrengir það sem nú er búið að leyfa. Helst vildi ég banna þá spilakassa sem nú eru leyfðir, en við eigum ekki að fara að opna á að hér séu rekin löglega spilavíti í landinu. Mér finnst það algjörlega fyrir neðan allar hellur að við gerum það, og það kannski í skjóli þess að það sé svo gott fyrir aukinn ferðamannastraum til landsins. Ég vil forgangsraða öðruvísi og hugsa fyrir það fólk í landinu sem er með spilafíkn og þarf að vinna í því með fjölskyldu sinni. (HHG: Fyrir það?)