145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:17]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um að Svíar skilgreini þann hluta spilavítanna sem snýr að spilavanda sem lýðheilsumál. Það er auðvitað ekkert skrýtið. Spilavandi er lýðheilsumál, en með því að setja á stofn lögleg spilavíti er verið að auka á þann vanda. Erum við ekki að tala um að reyna að draga úr þeim spilavanda og spilafíkn sem er vissulega lýðheilsumál? Vinnum við ekki gegn því með því að draga úr vandanum, frekar en að spýta í? Hér er bara verið að spýta í alveg eins og verið er að spýta í gagnvart þeim vanda sem hlýst af áfengisneyslu með því að fara að bjóða áfengi í allar verslanir landsins. Hérna er verið að auka vandann og draga síðan upp úr hatti sínum góð markmið um að vinna eigi að lýðheilsumarkmiðum og forvarnastörfum og hjálpa fólki sem eiga í slíkum vanda. Er ekki rétt að draga úr vandanum frekar en að auka hann og ætla sér svo að fara að vinna gegn honum? Ég hefði haldið að það væri frekar lýðheilsumarkmið, eins og það sem snýr að íþróttahreyfingunni að vinna þar með jákvæðum formerkjum að uppbyggingu ungmenna og að lifa heilbrigðu lífi. Ég get ekki flokkað það uppeldislega séð að hægt sé að skilgreina þetta, það er ekki neitt sérstaklega heilbrigt líferni að stunda fjárhættuspil. Ég get ekki skilið það. En við hv. þingmaður erum ekki stödd á sama stað í þessu máli. Hver verður að hafa sitt í þeim efnum. Ég tala bara fyrir ólíkum sjónarmiðum og tala fyrir því að þetta sé ekki gott inn í íslenskt samfélag.