145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[12:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um spilahallir sem sumir uppnefna spilavíti. Það er svo sem aukaatriði að mínu mati hvað merkimiði er notaður, það er eðli málsins sem skiptir máli.

Ég vil taka fram í byrjun að enn sem komið er er ég ekki hlynntur þessu máli en það er ekki vegna þess að ég sé á móti því að til staðar séu spilahallir eða að fjárhættuspil séu heimil, heldur eru það fyrst og fremst útfærsluleg atriði sem ég geri athugasemdir við. En við erum hér í 1. umr. þannig að ýmislegt á eftir að koma í ljós, bæði skýringar og sjálfsagt fleiri vandamál sem við þurfum að takast á við í nefnd og í umræðum í þingsal.

Í þessari umræðu koma oft upp, eða reyndar alltaf, sambærileg sjónarmið við þau sem komu upp í áfengismálinu og koma upp þegar talað er um hluti sem eru á einhvern hátt óæskilegir almennt. Auðvitað eru fjárhættuspil óæskileg að ýmsu leyti og auðvitað er áfengisneysla óæskileg að ýmsu leyti. Hið sama má segja um vímuefni, ólögleg sem lögleg, og margt fleira í lífinu. Í því samhengi kemur oft upp sú orðræða sem að mínu mati er afskaplega ljót, en hún kom upp fyrr í dag og einkennist af mikilli forræðishyggju.

Nú hefur oft verið kvartað þegar einhver uppnefnir eitthvað forræðishyggju. Mér finnst það svipað þegar fólk sem aðhyllist forræðishyggju kvartar undan því að vera kallað forræðishyggjusinnar og þegar fólk sem er á móti útlendingum kvartar undan því að vera kallað rasistar Það virðist reyndar ekki vera tilfellið með þann hv. þingmann sem talaði fyrr í dag og allt í góðu lagi með það, en ég hef tekið eftir þessari tilhneigingu og mér finnst hún skrýtin. Forræðishyggjusinnar hljóta að geta viðurkennt að þeir séu forræðishyggjusinnar og ættu ekkert að eiga í neinum vandræðum með það ef þeir raunverulega trúa því sem þeir trúa.

Svo er kannski annað mál að þeir eiga erfiðara með að rökstyðja málstað sinn öðruvísi en með því að gera öðrum upp skoðanir og orð sem aldrei hafa fallið úr þeirra munni.

Þegar kemur að þessum málum eru fleiri grundvallaratriði til staðar en einfaldlega lýðheilsa. Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að það að setja lagaumgjörð utan um eitthvað sem er ólöglegt en stundað samt sem áður geti stuðlað að bættri lýðheilsu. En það eru önnur grundvallaratriði til staðar og þau eru mjög sambærileg þeim sem við ræðum í áfengisfrumvarpinu og það er einfaldlega hugtakið „frelsi“.

Frelsi er ekki lýðheilsumál. Ef við ætlum að vera frjálst samfélag, sem ég trúi að við viljum í meginatriðum vera, ekki í öllum atriðum en í meginatriðum, þá þýðir það að lýðheilsusjónarmiðin geta ekki verið tromprök gegn öllu frelsi, það er bara bein lógísk afleiðing af því. Þannig að jafnvel ef þetta frumvarp leiðir af sér aukningu í andstöðu við lýðheilsu þá eru það ekki tromprök gegn málinu.

Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn á hinu háa Alþingi geti áttað sig á þessu, viðurkennt það og rætt opinskátt og heiðarlega. Á það við um alla, ekki einungis þá sem eru með frumvarpinu eða á móti því. Frelsið skiptir máli. Og það skiptir ekki aðeins máli þegar það er hollt, það skiptir líka máli þegar það getur verið óhollt. Það eru ekki tromprök að nota lýðheilsu gegn frelsinu. Og ekki öfugt heldur, það eru ekki heldur tromprök að segja að frelsið skipti alltaf meira máli en lýðheilsa.

Í 1. umr. höfum við ekki mikinn tíma til að ræða málið mjög djúpt en mig langar að nefna örfáa heimspekilega kanta á því og sömuleiðis komast aðeins inn í frumvarpið efnislega eftir því sem ég get á þessum tíma.

Mér finnst ágætt að hafa í huga, vegna þess að fólk hefur eðlilega alltaf áhyggjur af börnum og unglingum og uppvaxtarárum manneskjunnar, að það eru ýmsar lexíur sem manneskja þarf að læra til þess að verða sjálfstæður einstaklingur á fullorðinsaldri. Mikið af þeim lexíum eru sambærilegar. Ein af þeim er að maður þarf að passa sig á óhófi. Það er almenn lexía, ætti alla vega að vera það. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ef maður þarf að passa að borða ekki of mikla fitu þarf maður líka að passa að borða ekki of mikinn sykur. Ef maður á ekki að apa upp hegðun eftir einum sjónvarpsþætti eða kvikmynd á ekki að þurfa sérstaka lexíu eða sérstakt átak til að útskýra nákvæmlega sama punkt þegar kemur öðrum sjónvarpsþáttum eða öðrum kvikmyndum.

Þegar kemur að frelsinu á fólk og verður, sama hvað löggjafinn segir, að átta sig á því að það eru hættur sem fylgja því að búa í frjálsu samfélagi og að hver og einn einstaklingur verður, alveg sama hvað löggjafanum finnst, að axla ábyrgð á eigin hegðun gagnvart sjálfum sér og öðrum. Það er óhjákvæmileg lexía. Hún er ekki valkvæð. Við munum aldrei, vonandi aldrei í það minnsta, búa í samfélagi þar sem sú lexía verður á einhvern hátt ónauðsynleg vegna þess að hún verður einungis ónauðsynleg í umhverfi sem er ófrjálst og það er samfélag sem alla vega sá sem hér stendur hefur nákvæmlega engan áhuga á að búa í.

Að því sögðu er mikilvægt að forðast öfgar. Þetta frumvarp felur í sér mjög strangar reglur í kringum starfsemina, eðlilega. Það kemur fram í frumvarpinu að þær séu sérstaklega strangar fyrst um sinn á meðan verið er að prófa. Það þykir mér ábyrgt. Mér þykir ábyrgt af flutningsmönnum þessa frumvarps að hafa þetta þannig. Þetta er að miklu leyti mun strangara en ég hefði talið nauðsynlegt. En eins og kemur fram í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins skal endurskoða þetta eftir sjö ár. Þá búast flutningsmenn við samkvæmt greinargerð að frekar verði slakað á reglunum en að þær verði hertar. Mér þykir það ábyrg nálgun í því að heimila þetta. Ég verð að segja það.

Það er ýmislegt vel útpælt í frumvarpinu að mínu mati, svo sem öryggismálin, tengsl við eftirlitsmann og sömuleiðis er gert ráð fyrir fjármögnun forvarna, sem ég hygg að sé snyrtileg lausn til að fjármagna lausnina á vandanum í samhengi við vandann sjálfan. Mörgum þykir það ákveðin kaldhæðni, og jafnvel segja sumir hræsni þótt ég mundi ekki taka undir það, að nota eitthvað eins og fjárhættuspil til að fjármagna lausnir við því. Ég skil sjónarmiðið og ég skil tilfinninguna sem það vekur en ég verð samt að segja fyrir sjálfan mig að mér þykir það í raun og veru snyrtilegasta lausnin til að fjármagna svona hluti.

Það má nefna annan punkt sem ég átta mig enn þá ekki fyllilega á hvort sé hugsanlega í mótsögn við þetta, það getur verið. Sá punktur er að að mínu mati fjármögnun þeirrar hjálpar okkar sem við veitum hvert öðru með skattfé, með peningum. Við gerum það ekki með frelsi okkar. Ég skil mætavel og tel alla skilja mætavel þann samfélagslega skilning manna á því að við ætlum hafa heilbrigðiskerfi, við ætlum að hafa löggæslu og við ætlum að hafa réttarvernd og við ætlum að hafa hluti til að tryggja réttindi og helstu hagsmuni allra í landinu og við ætlum að gera það með því að borga skatta. Það er samkomulagið sem mér sýnist samfélagið hafa gert. Þannig er samkomulagið eins og ég hef alltaf skilið það.

Hins vegar laumast oft með inn í þetta samkomulag að við ætlum að hafa heilbrigðiskerfi og löggæslu og réttarvernd o.s.frv. að því gefnu að allir lifi rosalega heilbrigðu lífi. Það er samkomulag sem sá sem hér stendur er ekkert til í. Við fjármögnum samneysluna með peningum, ekki með því að hindra fólk í að gera það sem það vill í eigin lífi. Að sjálfsögðu hindrum við fólk í að hafa ýmis áhrif á líf annarra, enda er þá ekki lengur um hreint einstaklingsfrelsi að ræða.

Að því sögðu þykir mér ýmislegt við þetta frumvarp svolítið skrýtið og hlakka til að ræða það betur í nefnd. Eitt af því sem mér þykir hvað óþægilegast við það er bráðabirgðaákvæði um að einungis eitt leyfi skuli vera heimilt samkvæmt þessum lögum. Það er rökstutt með því að ekki sé endilega rekstrargrundvöllur fyrir meira en eina spilahöll á Íslandi. Sjálfsagt er það satt, en mér finnst það hins vegar ekki vera ástæða til að setja það sérstaklega í lög. Ef samkeppnin mundi tortíma þessum markaði þætti mér það allt í lagi vegna þess að ég sé enga þörf fyrir þetta. Ég sé enga þörf til að banna þetta en ég sé enga þörf fyrir að hafa það heldur. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna virðist endurspeglast í þessu frumvarpi á fleiri stöðum það sérstaka markmið að passa að þessi starfsemi gangi fjárhagslega. Mér finnst það ekki vera hlutverk löggjafans. Ef þetta gengur ekki upp þá gengur það ekki upp. Mér finnst það allt í lagi.

Það er fleira sem mér finnst skrýtið við hitt bráðabirgðaákvæðið, eða vil öllu heldur nefna það til umhugsunar. Það er að þar er kveðið á um að þetta skuli endurskoðað eftir sjö ár en leyfið gildir hins vegar til 15 ára. Ég hugsa að það komi betur fram í samtölum við sérfræðinga í nefnd hvernig nákvæmlega þetta eigi að virka en mér finnst rétt að taka það fram. Það er þarna 15 ára leyfi þótt lögin gildi einungis í sjö ár óendurskoðuð. Það er reyndar kannski ekki alveg rétt orðað hjá mér, en sem sé að lögin beri að endurskoða eftir sjö ár.

Í 6. gr. frumvarpsins eru fjórir töluliðir sem ég hef staldrað heldur við. Fyrst er það 1. töluliður þar sem kemur fram að eitt af skilyrðum fyrir leyfi sé að um sé að ræða hlutafélag eða einkahlutafélag. Ég velti fyrir mér hvers vegna. Af hverju má þetta ekki vera sjálfseignarstofnun eða góðgerðarsamtök? Ég skil ekki af hverju þetta þarf.

Í 4. málslið er kvöð um að leyfishafi skuli vera fær um að reka spilahöll á ábyrgan hátt, m.a. hafa fjárhagslega burði til þess að reka spilahöll og hafa yfir að ráða alþjóðlegri reynslu af rekstri spilahalla. Það að hafa fjárhagslega burði til þess skil ég mætavel, vegna þess að spilahöllin þarf að geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum, notendum. Hins vegar átta ég mig ekki á því hvers vegna viðkomandi ætti að þurfa að hafa alþjóðlega reynslu af rekstri spilahalla. Sömuleiðis velti ég því fyrir mér hversu margir aðilar geti hugsanlega komið til greina.

Mér þykir heldur óþægilegt við þetta frumvarp, verð ég að segja, að mér sýnist sem afskaplega fáir aðilar geta uppfyllt þessi skilyrði, sér í lagi með hliðsjón af því að einungis er heimilt í frumvarpinu tað veita eitt leyfi. Þá sé ég fram á að þetta verði mikið einokunarmál og þá þarf ég að fara að velta fyrir mér hvort það sé yfir höfuð gott að þetta sé á einkamarkaði eða hvort við ættum að hafa hér ríkisspilahöll, sem er hugmynd sem mér hugnast ekkert endilega betur.

En þetta eru vangavelturnar mínar sem vakna við lestur þessara ákvæða í frumvarpinu, sem ég hygg að muni leiða til einokunar á markaðnum.

Þá má einnig nefna að það er heimild síðar í frumvarpinu til að taka aðgangseyri og í einokunarstöðu hef ég áhyggjur af því að sú einokunarstaða yrði misnotuð hvað það varðar, vegna þess að ég hygg að hinn frjálsi markaður gangi einungis upp með þeim mekanismum í hinum svokölluðu kapítalísku kenningum sem stóla á samkeppni.

Í 5. tölulið 6. gr. er einnig tekið fram að leyfishafi skuli hafa yfir að ráða nægilegum fjölda ferðamanna þannig að rekstrargrundvöllur spilahallar sé tryggur. Það er tvennt sem ég skil ekki í þessu. Annars vegar hvers vegna frumvarpið hefur það að sérstöku markmiði að tryggja rekstrargrundvöll spilahallar. Af hverju má hún ekki fara á hausinn ef hún gengur ekki upp? Hins vegar hvers vegna það þurfi að byggjast á ferðamönnum. Ég hygg að spilahallir eigi heldur auðvelt með að skila hagnaði, ef ég á að segja alveg eins og er. Ef ekki finnst mér það í raun og veru allt í lagi eða svo lengi sem það getur staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum, alla vega langflestum og langoftast. Það fylgir allri starfsemi fjárhagsleg áhætta fyrir alla sem taka þátt í hagkerfinu yfir höfuð.

Þá er í 7. lið heldur dæmigerð klausa sem ég vil gera athugasemd við en átta mig á því að kannski fleiri eigi erfiðara með að sammælast mér um. Það er kvöð um að viðkomandi hafi ekki gerst brotlegur við lög um ávana- og fíkniefni. Þetta kemur einnig fram í 29. gr. Mér finnst þetta ekki gott skilyrði vegna þess að lög um ávana- og fíkniefni varða einungis ólögleg ávana- og fíkniefni og þá er einhvern veginn alltaf gert ráð fyrir því að með því að gera efnið ólöglegt sé það sjálfkrafa eitthvað allt annað en löglegt vímuefni. En eitt af hættulegustu vímuefnunum í mannlegu samfélagi, á Vesturlöndum í það minnsta, er áfengi og það er löglegt. Það kemur hvergi fram í lögum að enginn megi hafa notað áfengi í tvær eða þrjár vikur eða lögreglan haft afskipti af þeim vegna þess.

Það eru alltaf ólöglegu vímuefnin. Það er gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á fólk sem eru það skaðleg að fólkið geti ekki gert neitt lengur en auðvitað á nákvæmlega sama við þegar kemur að áfengi og reyndar er áfengi að mörgu leyti, ef ekki flestu, mun verra. Ég bið áheyrendur að ímynda sér verstu tegundina af hinum svokallaða hasshaus og síðan verstu tegundina af hinni svokölluðu fyllibyttu. Það þarf ekki að velta því lengi fyrir sér hvort sé skaðlegra starfsemi og hagsmunum annarra.

Ég geri athugasemd við að í 21. gr. er 21 árs aldurstakmark. Ég get bara talað fyrir sjálfan mig, ekki samkvæmt neinni opinberri stefnu míns flokks, en mér finnst persónulega að þegar maður er orðinn 18 ára, þegar maður er orðinn fullorðinn, þegar maður er orðinn sjálfráða finnst mér að maður eigi raunverulega að vera sjálfráða. Mér finnst óþægilegt að maður verði sjálfráða og fjárráða 18 ára, megi ekki kaupa áfengi fyrr en maður er tvítugur og megi síðan ekki fara í spilahöll fyrr en maður er 21 árs. Ég skil alveg varkárnina. Ég skil hana mætavel en mér finnst alveg þess virði að nefna þetta. Þegar maður er sjálfráða þýðir það væntanlega að maður eigi að ráða örlögum sínum, einkalífi sínu, ekki í lífi annarra en sínu lífi, í samræmi við það að vera orðinn fullorðinn einstaklingur. Mér finnst skjóta skökku við.

Í 24. gr. er heldur ítarleg skráningarskylda og reyndar er víðar í frumvarpinu mikið af skráningarskyldu sem ég mundi vilja staldra við. Aftur er þar um að ræða ákvæði sem ég skil mætavel. Þau eru að sjálfsögðu gerð í öryggisskyni, sem er alveg málefnaleg ástæða. En mér þykir þess virði að staldra þar við og íhuga hvort hún gangi hugsanlega lengra en þörf er á.

Nú hef ég ekki meiri tíma, virðulegi forseti, og lýk því máli mínu.