145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari stuttu ræðu að freista þess að lýsa því yfir hverju ég er sérstaklega hryggur í þessu máli. Mér finnst enn og aftur koma upp á yfirborðið að maður hefur ærið tilefni til að gruna stóra aðila í íslensku viðskiptalífi, hinar stóru viðskiptablokkir, um að vera í allsherjarsamsæri gegn neytendum. Manni finnst maður alltaf vera hlunnfarinn sem neytandi á Íslandi. Ég spurði fulltrúa Samkeppniseftirlitsins á fundi áðan í efnahags- og viðskiptanefnd — ég held að ég sé ekkert að brjóta neinn trúnað með því að lýsa þeim samskiptum, þau voru ágæt — hvaða ráðstöfun á þessum hagnaði tryggingafélaganna mundi endurspegla heilbrigt samkeppnisumhverfi á Íslandi. Hvað væru tryggingafélögin að gera ef það væri heilbrigt samkeppnisumhverfi? Jú, væru þau þá ekki að reyna að nota þennan pening til að búa til betri vörur fyrir neytendurna, til að reyna að hækka endurgreiðslur á tjónlausum árum, reyna að lækka iðgjöldin, reyna að laða til sín viðskiptavini í þessu umhverfi öllu saman?

Stóri ömurleikinn er að það er ekkert að gerast. Enn og aftur sjáum við þennan kósí fákeppnismarkað þar sem þrjár blokkir skipta með sér 30% hver og svo fær einn annar að vera með með 10%. Svo er eins og menn séu í einhverri lokaðri Facebook-grúppu að tala saman og ákveða á sama tímapunkti að greiða sér út myndarlegan arð. Þeir virðast ekkert vera að spá í neytendurna, viðskiptavinina. Það er þetta sem birtist síendurtekið á svo mörgum sviðum íslensks markaðar, það er þetta sem veldur manni vonbrigðum og það verður mjög eindregið (Forseti hringir.) að skora á forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja að reka af sér slyðruorðið þegar kemur að þessum málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)