145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:16]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um áformaðar milljarðaútgreiðslur arðs úr tryggingafélögunum sem eru umfram hagnað ársins og eru í einhverjum tilfellum fjármagnaðar með lántökum og á sama tíma eru iðgjöld viðskiptavinanna hækkuð.

Ég þakka sérstaklega Félagi íslenskra bifreiðaeigenda fyrir að hafa barist í þessu máli og fyrir að vekja athygli á þessum háu arðgreiðslum og iðgjaldahækkunum og fyrir baráttuna fyrir hagsmunum neytenda. FÍB hefur haldið því sjónarmiði á lofti að ef það sé svigrúm til að greiða svona mikið fé út úr tryggingafélögunum hljóti að koma til álita að viðskiptavinir tryggingafélaganna njóti þess í einhverjum mæli, ekki síður en hluthafarnir. Það er að mínu mati mjög sanngjörn krafa.

Efnahags- og viðskiptanefnd ákvað á fundi sínum á þriðjudag að kalla eftir upplýsingum og svörum frá Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu og boða fulltrúa þeirra til fundar við sig í dag. Það ber að þakka báðum stofnunum fyrir að bregðast hratt við þessari beiðni nefndarinnar. Fjármálaeftirlitið vildi ekki taka beina afstöðu til þeirrar spurningar hvort þessi félög væru of kerfislega mikilvæg til að fá að falla og það virðist ekki hafa úrræði í dag til að stöðva arðgreiðsluáformin svo lengi sem félögin uppfylla reglur á Evrópska efnahagssvæðinu. Hér gætu þurft að koma til einhverjar sérreglur fyrir Ísland.

Samkeppniseftirlitið telur að fákeppni ríki á tryggingamarkaði og telur vert að skoða hvort eðlilegt sé að góð afkoma af sjóðum tryggingafélaganna ætti einnig að renna til viðskiptavinanna í einhverjum mæli. Að mínu mati má líka vera að hér þurfi að endurvekja hið ágæta félagsform samvinnutryggingafélög eða gagnkvæm tryggingafélög sem eru rekin með því sjónarmiði að afgangur af rekstri þeirra renni til viðskiptavinanna sjálfra. Það má vera að á markaði sem einkennist af fákeppni eins og hér er sé sérstaklega nauðsynlegt að slíkt tryggingafélag sé til staðar til að halda öðrum tryggingafélögum við efnið.

Í dag bárust fréttir af því að Sjóvá og VÍS hafi ákveðið að greiða út mun lægri arð en áður var áformað. Því ber sérstaklega að fagna, enda gefur þetta félögunum svigrúm til að bjóða viðskiptavinum sínum betri kjör en annars hefðu orðið. Ég vona að félögin setji viðskiptavini (Forseti hringir.) sína í öndvegi.