145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er enginn skortur á vanþóknun manna í þessu máli hvað varðar arðgreiðslur vátryggingafélaganna. Enginn skortur er á vanþóknun í þessum sal svo ég ætla ekki að bætast í þann hóp að lýsa yfir vanþóknun minni á fyrirhugaðri arðgreiðslu. Ég sé nefnilega ekki eftir að hafa skoðað málið, ekki ítarlega, til þess hefur ekki gefist tími, en þó með nokkrum hætti, að það sé endilega tilefni til þeirrar geðshræringar sem hefur gripið um sig í þjóðfélaginu vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna, hvað þá — alveg örugglega ekki — tilefni til þeirra stóryrða sem menn hafa gripið til til þess að lýsa þeirri vanþóknun sinni.

Hér hefur ekki verið um það að ræða, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði það, að menn séu að skýla sér á bak við nýjar reiknireglur eða greiða sér út arð í ljósi nýrra reiknireglna sem verða innleiddar hér innan skamms, svokallaðra Solvency II reglna. Menn þurfa að hafa í huga að hér á landi eru núna í fyrsta sinn uppi áform um að samræma aðferðir til að reikna út vátryggingaskuldina. Öll vátryggingafélögin hafa verið að búa sig undir það undanfarin missiri. Þessar nýju reglur hafa leitt til þess að tjónaskuldin sem oft hefur verið kölluð bótasjóður, sem voru bólgnir hér áratugum saman og menn léku sér með að vild, margir hverjir, í mörg ár, hefur nú verið metin með miklu raunhæfari og gagnsærri hætti en áður.

Í ljósi þess að nú hafa vátryggingafélögin afturkallað tillögur sínar um arðgreiðslur velti ég líka fyrir mér stöðu helstu hluthafa í tryggingafélögunum. Það er ríkissjóður í einu tryggingafélaginu og lífeyrissjóðirnir í öllum hinum. Hver hefur talað máli sjóðfélaga lífeyrissjóðanna (Forseti hringir.) sem verða hér af greiðslum, ríkissjóður af 420 millj. kr. arðgreiðslu við þessa ákvörðun ef hún raungerist? Hver ætlar að tala máli sjóðfélaganna í lífeyrissjóðunum í þessu máli?