145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Tryggingafélögin hafa birt fyrirætlanir sínar um að hækka arðgreiðslur sem fengnar eru meðal annars með bakfærslu svokallaðra bótasjóða og þau áform hafa kallað fram harkaleg viðbrögð. Það er eðlilegt þegar til stendur að greiða út arð sem er meiri en hagnaður ársins og á sama tíma eru boðaðar hækkanir á iðgjöldum vegna þess að afkoma tryggingafélaga sé undir væntingum. Ákvarðanir um arðgreiðslurnar, hvort sem þær eru teknar til baka eða ekki, vekja upp margar spurningar um rekstrarumgjörð tryggingafélaga og fákeppnina sem við búum við og hvernig eigendur tryggingafélaganna nýta sér hana til hagsbóta, áleitnar spurningar eins og hvort framlög í bótasjóðina hafi verið ofáætluð, hvort viðskiptavinir hafi verið látnir borga of mikið á undanförnum árum og hvort mismunurinn ætti þá ekki að ganga til þeirra en ekki bara til eigenda tryggingafélaganna, og spurningar um hvernig gjaldskrár eru ákvarðaðar. Umræða verður um það varnarleysi sem virðist blasa við neytendum sem eru skyldugir til að kaupa ákveðnar tryggingar en virðast í ríkum mæli verða að sæta umdeilanlegum verðákvörðunum vátryggingafélaganna.

Nú er frumvarp um vátryggingar til meðferðar í þinginu og grípa mætti það tækifæri til að breyta lögum í þá veru að neytendur nytu ofmats á færslum í bótasjóði, svo sem í formi lækkunar á iðgjöldum. Beita mætti skattalögum í kjölfarið þar sem við ætti. Það þarf einnig að taka til athugunar staðla reikningshalds, reglur um áhættu og mat á henni, samsetningu bókhaldsstærða og möguleika á arðgreiðslum vegna hennar. Alþingi verður að bregðast við stöðunni af meiri ákveðni og skilvirkni en með sérstökum umræðum eins og við tökum þátt í núna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að Alþingi þurfi að setja stífari reglur um færslu gjalda í bótasjóði vátryggingafélaga. Telur hann að nægilegrar neytendaverndar gæti gagnvart verðlagningu vátrygginga með þeim heimildum sem skattalög og reikningsskilastaðlar virðast veita (Forseti hringir.) vátryggingafélögum?