145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

arðgreiðsluáform tryggingafélaganna.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur um margt verið ágætisumræða, sumpart hafa mjög ólík sjónarmið tekist á en við erum þó að uppistöðu til sammála um að í atvinnulífinu verða menn að ganga þannig fram að ekki sé verið að storka væntingum og viðhorfum í samfélaginu. Við höfum séð stjórnir félaganna gera breytingar á tillögum sínum þannig að það liggur þá fyrir.

Mig langar aðeins að koma inn á nokkra þætti sem hafa flotið í umræðunni í dag og undanfarna daga. Eitt er þegar menn segja að bótasjóðirnir bólgni út á kostnað tryggingartaka. Þegar maður skoðar reikninga félaganna er þetta kannski ekki alveg svona. Það eru nefnilega vísbendingar um það hjá mörgum félaganna, ekki bara í fyrra heldur lengra aftur í tímann, að iðgjaldagreiðslurnar standi ekki undir tryggingastarfseminni. Það er önnur starfsemi undir hatti tryggingafélaganna sem skilar meiri arði. Þetta er grundvallaratriði, það er ekki hægt að standa hér hver á eftir öðrum og segja: Iðgjöldin eru langt umfram það sem menn þurfa að taka til hliðar þegar opinberir reikningar eftir skoðun FME sýna annað. Þetta hlýtur að þurfa að hafa með í umræðunni.

Ég vil líka benda á að við höfum dæmi þess að tryggingafélögin hafi staðið rétt sæmilega fyrir ekkert mjög mörgum árum. Þeim gengur ágætlega núna, en það er ekkert endilega merki um að það verði alltaf þannig. Við höfum líka dæmi um að menn hafa haft aðgengi að íslenska tryggingamarkaðnum, t.d. þegar Scania kom hingað inn, en þeir fóru aftur út. Vegna hvers? Vegna þess að samkeppnin á því sviði þar sem þeir voru að einbeita sér var það hörð, kannski eftir viðbrögð innlendu fyrirtækjanna, ég skal ekki segja um það, en ef ég man rétt færði móðurfyrirtækið nokkur hundruð milljóna gjaldfærslu í sína reikninga vegna starfsemi (Forseti hringir.) dótturfélagsins á Íslandi. Sem sagt, niðurstaðan úr þeirri útrás til Íslands var samfelldur taprekstur í samkeppni við íslensku tryggingafélögin ár eftir ár.

Við erum hins vegar sammála um að við viljum sjá virka samkeppni. Við viljum að tryggingartakar njóti góðs af þeirri samkeppni og áfram skulum við vera vakandi yfir því að lög og reglur hámarki líkurnar á slíku.