145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum.

247. mál
[16:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að taka þátt í þessari umræðu. Mér finnst afar gott mál að móta stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum. Ég velti því fyrir mér að beiðnin er löngu komin fram og beðið er um að skila stefnunni á vorþingi 2016, ég held að það sé nokkuð ljóst að það gangi ekki eftir. Það er mikið að gera og það er kannski spurning fyrir flutningsmenn og frummælanda að reyna að finna út aðra dagsetningu þannig að málið verði alla vega ekki saltað á þeirri forsendu.

Margt áhugavert kom fram. Við gerum okkur kannski fæst grein fyrir því hve mörg efni eru í umhverfi okkar, kemísk efni og annars konar efni, sem hafa bein áhrif á okkur. Það er sláandi að 3 þúsund efni skuli komin á markað eftir að lög voru sett sem standast ekki áhættumat, og að 100 þúsund efni séu á markaði nú þegar sem ekki hafa verið áhættumetin. Eins og framsögumaður rakti safnast efnin upp í vefjum manna og dýra og geta valdið skertri æxlunarfærni, eru bæði ofnæmisvaldandi og krabbameinsvaldandi, svo að eitthvað sé talið upp, fyrir utan umhverfisskaðann sem af þeim hlýst.

Ég tek undir það sem þingmaðurinn sagði hér áðan. Ofnæmisviðbrögð eru jafnvel ekki höfð til hliðsjónar þegar mat fer fram á aukaefnum í mat, það er ekki einn af áhættuþáttunum sem metinn er. Við erum orðin upplýstari og meðvitaðri um það hvað við látum ofan í okkur, teljum okkur hugsa um heilsuna með því að borða hollan mat og velja betur þar. Á sama tíma, eins og ræðumaður sagði í lok ræðu sinnar, erum við að smyrja á okkur alls konar efnum sem smjúga inn í húðina í formi snyrti- og hreinlætisvara án þess að velta því fyrir okkur hvort þau eru skaðleg eða ekki. Þetta smýgur inn í húðina og sest að í líkamanum. Það var afar áhugaverður og góður punktur sem þingmaðurinn kom inn á varðandi vinnuaðstæður þess fólks úti í hinum stóra heimi sem framleiðir flest af því sem við erum að nota.

Ég tek undir það sjónarmið sem varðar rétt neytenda, hvort varan inniheldur það sem hér er talað um sem kandídatslista, þ.e. sérlega hættuleg efni. Þegar maður veltir því fyrir sér er verulega mörgu ábótavant í þessu. Kannski erum við bara svona lélegir neytendur að við gerum ekki þessar kröfur. Við getum til dæmis nefnt skyndibita, gríðarlega mikið af aukaefnum er í mat sem að stóru leyti er innfluttur og við neytum fyrir vikið óhollari matar.

Ef við vitum ekki hvaða efni eru skaðleg, þá getum við ekki varað okkur. Það er kannski það fyrsta. Eins og hv. þingmaður benti á, og kemur fram í greinargerðinni, eru lögin kannski ómöguleg eins og þau eru. Ef þú hefur 45 daga til að svara þá er neytandinn löngu hættur að hafa áhuga á því sem hann vildi vita. Maður bíður ekki beinlínis í 45 daga eftir því að kaupa tiltekna vöru til þess eins að fá að vita innihald hennar þó að það geti átt við í einhvern tíma. Mér fannst það mjög áhugavert að í Evrópu hefur sums staðar verið brugðist við með því að útbúa snjallsímaapp eða forrit fyrir slíkt. Það er eitt af því sem nútíminn kallar á. Ég held að stór hluti landsmanna sé með síma sem getur skannað strikamerki vöru og annað slíkt. Mér finnst það afar áhugaverð nálgun og ég velti því fyrir mér af hverju við getum ekki tekið það upp. Er eitthvað sem hamlar slíkri aðlögun? Eða þyrftum við að vera með eitthvað séríslenskt í því samhengi? Ég er ekki viss um það. Við erum að flytja inn mikið af vörum. En við gætum þurft að laga það að því sem er framleitt á Íslandi.

Það sem stendur konum næst í því sem hér er rakið eru ekki bara auknar líkur á krabbameini og sykursýki, heldur það sem kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka kvensjúkdóma- og fæðingarlækna, sem kom út í október síðastliðnum, um að hið mikla magn eiturefna sem mannkynið kemst í snertingu við geti valdið aukinni ófrjósemi, fyrir utan það að valda milljónum dauðsfalla á hverju ári og hafa samfélagslegan kostnað í för með sér.

Það er líka gott það sem þingmaðurinn nefndi sem lið í átaki hjá dönsku neytendasamtökunum, þ.e. að fræða neytendur um hvernig þeir geta forðast skaðleg efni, og þar er líka verið að vísa í snjallsímaforrit. Hér eru forrit búin til daginn út og daginn inn, þetta er ein leið sem við gætum farið til að reyna að upplýsa fólk. Auðvitað byggist það á gríðarlegu upplýsingaflæði, þ.e. það þarf að safna saman gagnagrunni til að hægt sé að vinna úr þessu. En að því gerðu held ég að það sé það sem gæti orðið árangursríkast í því að ná árangri.

Í Umhverfisfréttum er Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, líf-, umhverfis- og auðlindafræðingur, með pistil. Þar kemur fram að heilsubrestur sem má rekja til áhrifa efna á hormónastarfsemi kosti heilbrigðiskerfi Evrópusambandsins 173 milljarða bandaríkjadollara. Við hljótum að staldra við og hugsa með okkur hvort við getum gert eitthvað. Og ber okkur ekki skylda til að gera eitthvað? Ég held að það sé þannig. Þetta er reyndar fyrsta rannsóknin sem gerð hefur verið til að meta slíkan kostnað og var henni stýrt af aðstoðarprófessor við New York University School of Medicine. Þar er verið að tala um efni í okkar daglegu neysluvörum, eins og þingmaðurinn kom inn á varðandi bisphenol sem er meðal annars að finna í plastvörum og pelum, innan í niðursuðudósum og á búðarkassakvittunum. Mér fannst það áhugavert. Það er ekki bara í pelum og snuðum, það er í málningarvörum og búðarkassakvittunum, miklu víðar en við teljum.

Mér finnst til ótrúlega mikils að vinna. Hér er einungis verið að tala um áætlun, en ég trúi því og treysti að ráðherra sjái sér fært að verða við þessari þingsályktunartillögu, sérstaklega þar sem hún er þverpólitísk. Það er augljóslega áhugi fyrir því í öllum flokkum að þetta verði rannsakað, enda viljum við öll stuðla að auknu heilbrigði og aukinni vitund neytenda.

Frú forseti. Ég ætla að láta þetta duga í bili, en mér finnst málið mjög áhugavert.