145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

mótun stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvörum.

247. mál
[16:53]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta var kannski ekki ætlað sem andsvar, en ég vil samt taka undir með flutningsmanninum og segja að það skilar sér greinilega í gegn að hv. þingmaður lagði mikla vinnu í greinargerðina. Það er svolítið sorglegt að hugsa til þess að áður hafi verið send áskorun á stjórnvöld um að fara að gera eitthvað í málunum og við erum ekki komin lengra en það að við erum loksins núna hætt að hlæja að þessu og farin að leggja eitthvað til málanna. Það er líka góður punktur að vera ekki alltaf að bíða eftir EES-reglugerðum. Af hverju getum við ekki bara tekið skrefið eins og nágrannalöndin og tekið þá ákvörðun að við ætlum að vera framarlega í þessum málum, við ætlum að vera skrefi á undan og við ætlum að byrgja brunninn?

Svo vil ég taka undir það að núna gæti einmitt verið rétti tíminn, því við sjáum að neytendur eru orðnir miklu upplýstari. Neytendur hafa fleiri tækifæri í dag til þess að afla sér upplýsinga um vörur. Ef einhver pantar sér vörur utan frá er ótrúlega mikið af upplýsingum að finna á internetinu til að sjá hvað er í þeim. Vonandi getum við komið þessu máli lengra og ég hvet nefndina til þess að reyna af fremsta megni að vinna hratt þannig að við komumst áfram með það og þurfum ekki enn og aftur að mæla fyrir því á nýju þingi.