145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

361. mál
[17:15]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta mál fyrir og leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Ég fagna sérstaklega 4. tölulið þar sem segir að börn til tíu ára aldurs sem hafa þörf fyrir gleraugu sem er hluti af læknismeðferð fái þau að fullu greidd. Ég ólst upp sem gleraugnaglámur og veit að gleraugu eru mjög dýr og ekki nóg með það heldur eru sjónskekkjur og sjónskerðingar eitthvað sem er í ættum. Hver fjölskylda þarf því oft að greiða gleraugu fyrri fleiri en eitt barn. Glerin fyrir gleraugnagláma eins og mig kosta á bilinu 50–80 þús. og þau þarf að endurnýja árlega af því að börn stækka mjög hratt og sjónin breytist.

Þetta er frumvarp er því verulega þarft og ég er mjög hamingjusöm að sjá það hér í þinginu. Þetta er eitthvað sem við eigum að vera að vinna að, sérstaklega þegar allt gengur vel í samfélaginu og hlutirnir eru á blússandi uppleið. Þetta er frábært verkefni sem ríkið á að taka að sér. Það eru margir sem þurfa að nota gleraugu einhvern tímann á lífsleiðinni. Það er rétt sem hv. þingmaður benti á að fyrstu ár í lífi barna eru mikilvæg þegar kemur að þroska sjóntaugar og heila þar af leiðandi og það er náttúrlega grundvöllur þess að geta átt farsælt líf með góða sjón seinna meir. Þetta er því frábært mál og ég óska því velfarnaðar. Vonandi kemst það fallega í gegnum nefnd og allar umræður.