145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

innflutningur nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.

78. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef að sjálfsögðu kynnt mér það sem stendur í Bændablaðinu. Eins og allir góðir Íslendingar les maður það í hvert skipti sem það kemur út. En það breytir ekki þeim tölum og þeim niðurstöðum rannsókna sem þegar liggja fyrir um fortíðina. Við tökum ekki ákvarðanir sem eingöngu eru grundvallaðar á skammtímaniðurstöðum.

Ég vil spyrja hv. þingmann á móti hvort hún hafi engar áhyggjur af þeim röddum og þeim fræðimönnum sem halda því fram að skyldleikaræktun í íslenska stofninum sé of mikil. Telur þingmaðurinn ekki að ákveðnu hámarki sé náð varðandi það hversu langt er hægt að ganga í því efni? Niðurstöður fræðimanna benda okkur á þetta og á það verðum við að hlusta.

Það er rétt að við höfum náð aukinni framlegð frá því á áttunda áratugi síðustu aldar í framleiðslu með því meðal annars að bæta fóðurgjöf. Það er rétt. En rannsóknir og fræðimenn hafa jafnframt bent á að sú þróun er ekki endalaus. Ekki er endalaust hægt að ganga út frá því að aukin nyt náist með því móti.

Annars fagna ég því að hv. þingmenn gefi sér færi á að blanda sér í umræðuna og bíð eftir því að málið komist á dagskrá. En ég vonast svo sannarlega til að þetta mál fái jákvæða umfjöllun í atvinnuveganefnd.

Varðandi skoðanakönnunina þá er það ekki þannig að sú sem hér stendur láti stjórnast af skoðanakönnunum. Það er einfaldlega vegna sannfæringar sem ég legg mál fram hér í þinginu.