145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

innflutningur nautasæðis til eflingar innlendri mjólkurframleiðslu.

78. mál
[17:48]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þar sem þingmaðurinn talar svolítið um „endalaust, endalaust“ þá kom ábending til mín í dag um þennan misskilning í kaflanum um skyldleikarækt sem fylgir þingsályktunartillögunni þar sem talað er um 9% skyldleikaræktarstuðul.

Þeir sem hafa verið að læra þetta fag telja að þetta sé marklaust þar sem frekar er horft á aukningu milli ára og mælt í virkri stofnstærð. Hún er talsvert hærri á Íslandi en með erlenda stofna, en það er óhjákvæmilegt að skyldleikaræktarstuðull hækki jafnvel þótt engin ræktun sé því að stofninn er ekki óendanlega stór. Það á jafnt við hér á landi sem erlendis.

Ég er ekki bara að tala um þann árangur sem við höfum náð á síðustu áratugum. Ég er að tala um þann mikla árangur sem við höfum náð núna. Ég tel í fyrsta lagi að það hefði mátt vera metnaður í að uppfæra greinargerðina með þeim úreltu tölum sem þar standa. Það sem segir um að innlend framleiðsla eigi ekki eftir að anna eftirspurn innlends markaðar tel ég einnig orðið úrelt miðað við ástandið, þar sem MS hefur gefið það út að þeir muni greiða fullt verð fyrir mjólkina út þetta ár. Það stefnir því miður, að því er virðist, í vandræði hjá Mjólkursamsölunni eftir það, hvaða verð þeir ætla að gefa bændum. Ég tel að við ættum kannski að einblína meira á það núna, þar sem það kemur líka fram að þetta sé ekki endalaust. Á síðasta ári var afurðahæsta kýrin í 12.500 kg eða þar um bil og átta hæstu um 12.000 kg. Tíu afurðahæstu búin voru að meðaltali með 7.500 kg eftir árskúna.

Ég vil að lokum spyrja þingmanninn hvernig hún telur að þetta eigi að fléttast inn í Ríó-sáttmálann. Ég hef rætt við erlenda bændur sem hafa komið til Íslands. Á meðan ég (Forseti hringir.) var við nám við Landbúnaðarháskóla Íslands fór ég með þá í kennslufjósið og sagði þeim frá þessari umfjöllun. Þeir sögðu: Í guðanna bænum ekki því að finnska kýrin er við að deyja út eftir að þetta var gert.