145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

fyrirspurnir á dagskrá.

[15:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta eru ekki einhverjar fyrirspurnir, þetta eru fyrirspurnir til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um söluna á Borgun, um milljarðahagsmuni fyrir ríkissjóð Íslands sem legið hafa fyrir hér frá því í janúar, ekki bara munnleg fyrirspurn sem ekki hefur verið svarað heldur líka skrifleg fyrirspurn. Bjarni Benediktsson er í Alþingishúsinu í dag. Við hljótum að spyrja hvers vegna hann enn einn mánudaginn svarar ekki því sem fyrir hann er lagt um Borgun. Þingið hefur eftirlitshlutverki að gegna, ekki síst þegar milljarðahagsmunum íslenska ríkisins og almennings hefur verið klúðrað með sama hætti og ljóst er að gerðist í Borgunarmálinu. Það er grundvallaratriði að forseti Alþingis gangi eftir því að ráðherrann sé hér til svara.

Nú lítur út fyrir að hann verði ekki til svara áður en aðalfundur hefur verið haldinn og áður en frestur Bankasýslunnar til að kalla eftir viðbrögðum Landsbankans verður runninn út. Hann hefur verið hér undanfarna mánudaga að svara öðrum fyrirspurnum, bara ekki Borgunarfyrirspurninni, virðulegur forseti, og við hljótum að gera alvarlegar athugasemdir við það að ráðherrann fái þannig að velja þau efni sem hann kýs að svara og svara ekki.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna