145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

fyrirspurnir á dagskrá.

[15:11]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er annaðhvort virðingarleysi við þingið sem hlýtur að liggja að baki því að ráðherrann kemur ekki hér til að svara þessari fyrirspurn eða þá viljaleysi eða sú staðreynd að málið er óþægilegt.

Nú er Fjármálaeftirlitið búið að boða birtingu álits á þessum viðskiptum sem mun líta dagsins ljós innan fáeinna daga. Bankasýslan er búin að mæta á fund hv. fjárlaganefndar og þar hefur komið fram að hún telur málsmeðferðina óeðlilega. En hæstv. fjármálaráðherra þegir þunnu hljóði og svarar ekki þinginu, þeim spurningum sem lagðar voru fram fyrir mörgum vikum síðan. Auðvitað er þetta óásættanlegt, virðulegi forseti.

Ég vil líka fá að nefna fyrst ég er komin upp í umræðu um fundarstjórn forseta ferð sendinefndar eða ferðahóps til New York sem fréttir hafa borist af vegna fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. (Forseti hringir.) Þingið virðist ekki eiga nema einn fulltrúa í þeirri sendinefnd, hv. þm. Þorstein Sæmundsson. Og það er engum kunnugt um að þingflokkunum hafi verið gefinn kostur á að (Forseti hringir.) tilnefna fulltrúa í þetta ferðalag, virðulegi forseti. Ég geri athugasemdir við það.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna