145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

staða mála í heilbrigðiskerfinu.

[15:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að beina spurningum til hæstv. forsætisráðherra um stöðu mála í heilbrigðiskerfinu á þessum tímapunkti. Við heyrum fréttir, sem hafa verið viðvarandi undanfarin missiri, af ófullnægjandi aðstæðum á þjóðarsjúkrahúsinu; sífelldar fréttir af auknum kostnaði fólks af meðferðum. Þessar fréttir náðu hámarki, neikvæðar fréttir af heilbrigðiskerfinu, um helgina þegar við sáum myndir af sjúkrarúmum í bílageymslu á Landspítalanum. Á sama tíma heyrum við fréttir af því að traust á heilbrigðiskerfinu fer minnkandi. Það er grafalvarlegt mál, ef tæplega helmingur landsmanna segist nú bera mikið traust til þess og þær trauststölur hafa verið að hrynja. Það er mjög mikilvægt að fólk beri traust til heilbrigðiskerfisins til þess að það leiti sér lækninga í tíma og við þurfum aðstæður sem eru þannig að fagfólk vilji vinna í íslenskri heilbrigðisþjónustu.

Við síðustu fjárlagagerð lagði stjórnarandstaðan til að leggja 2,7 milljarða í að bæta við brýnustu þörf í heilbrigðismálum. Því var hafnað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Viðbótin var 1.250 milljónir, en það getur engum blandast hugur um það, eins og ástandið er núorðið, að það er ekki nóg.

Hvernig vill hæstv. ráðherra taka á þessum málum? Hvert er svar forustu ríkisstjórnarinnar? Þá dugar ekki að drepa málum á dreif með því að fara að tala um eitthvað annað, eins og að breyta um staðsetningu á uppbyggingu sem er fyrir löngu orðið mjög brýnt að ráðast í og hæstv. ráðherra hefur sjálfur samþykkt hér í þingsal vorið 2014 að eigi að vera á þeim stað sem nú er gert ráð fyrir. Það þarf alvörusvör. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að grípa til alvöruúrræða í því ástandi sem upp er komið?