145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

staða mála í heilbrigðiskerfinu.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Sú endurnýjun og uppbygging sem samstaða náðist um er í gangi akkúrat þessa dagana, enda hristist allt og skelfur á Landspítalanum, svo mikill er hamagangurinn við þá endurnýjun og uppbyggingu sem menn ákváðu að væri þó nauðsynlegt að ráðast í sem næsta skref, hvað sem liði framtíðarstaðsetningu spítalans. Það er ákaflega undarlegt, virðulegur forseti, að heyra í formanni flokks sem er stofnaður upp úr launþegahreyfingunni og hefur helgað sig því, að eigin mati a.m.k., að berjast fyrir kjarabótum, að núna allt í einu eigi ekki einu sinni að líta til launakostnaðar þegar verið er að meta framlög til heilbrigðiskerfisins. Það er ekki svo langt síðan, virðulegur forseti, að það var krafa númer eitt. Það var það mikilvægasta. Ég heyrði ekki annað frá hv. þingmanni og félögum hans en að það mikilvægasta væri að bæta í heilbrigðismálin til þess að geta bætt launin svo að við héldum fólkinu á Íslandi og héldum góðu heilbrigðiskerfi, því að heilbrigðiskerfið væri bara eins gott og það starfsfólk sem þar starfaði. Þetta er alveg rétt og þess vegna bættum við verulega í laun til þessara (Forseti hringir.) hópa en höfum um leið verið að bæta tækjakost og ráðast í nauðsynlegar viðbætur og viðhald.