145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

erlendir leiðsögumenn.

[15:35]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég skal útskýra það. Það er nefnilega þannig að menn geta sett sérreglur um þjóðgarða, um hæfisskilyrði leiðsögumanna á tilteknum svæðum. Ég held að á viðkvæmustu svæðunum okkar sé ferðamannastraumurinn slíkur að við verðum að gera það.

Náttúra Íslands er sérstök. Hún er mjög ólík náttúru meginlands Evrópu þaðan sem flestir þessir leiðsögumenn koma. Nú er mikil ásókn leiðsögumanna annars staðar að, enn lengra í burtu, sem hafa ekki þekkingu á því að það er til dæmis ekki í lagi að aka á sandauðnum hálendis Íslands. Það skilur eftir sig för og sár og ör sem gróa seint eða aldrei.

Þess vegna er það skylda ríkisstjórnarinnar að vera að vinna í því hvernig hægt er að nota stjórntækið sem felst í þjóðgörðunum til þess að koma í veg fyrir skaða. Við höfum séð að ríkisstjórnin hefur ekki ráðið við þetta verkefni þegar kemur að fjölförnustu ferðamannastöðunum. Hún verður að fara að vakna. Hún verður að fara að reka af sér slyðruorðið og fara að taka á þessum vandamálum.