145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

erlendir leiðsögumenn.

[15:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég fyrir þetta. Ég vil hins vegar benda þingmanninum á að það er alls ekki rétt að ríkisstjórnin sofi í þessu máli né í öðrum málum. Það var til dæmis Alþingi Íslendinga sem afgreiddi ekki frá sér innviðafrumvarp þess ráðherra sem hér stendur þannig að það er núna að koma inn í þingið. Ég tel að það sé grundvöllur þess að við getum farið að kortleggja og byggja upp innviði landsins varðandi ferðamannastaði og hvernig við ætlum að taka á málum, hvernig við ætlum að dreifa umferðinni.

Ég tek sannarlega undir það að ráðuneytið þarf að hugsa um náttúru landsins alls. Auðvitað eru svo sérreglur um ákveðna viðkvæmari staði. En ég lít svo á að mitt hlutverk sé að huga að náttúrunni hvar sem hún er. Hún er öll viðkvæm, hún er öll sérstök, en vitaskuld er hún öllu viðkvæmari á miðhálendinu en annars staðar sökum hæðar og þess veðurfars sem þar er.

Ég held að við ættum að byrja á, ef við ætlum að gera vel, þeim þjóðgörðum sem við höfum. Ég tek undir það að skoða hvað við getum gert varðandi umrædda leiðsögumenn.