145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

[15:37]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um hvenær megi vænta niðurstöðu nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði í nóvember síðastliðnum um endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Nefndin átti að skila tillögu eigi síðar en 15. desember síðastliðinn. Nú hefur málið verið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra undanfarin tvö ár, ef ég man rétt. Það er mjög brýnt að farið verði að taka á þessum málum og við þurfum að fara að sjá þetta frumvarp koma inn í þingið.

Sú staða sem íslenskir námsmenn búa við í dag varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna er algjörlega fyrir neðan allar hellur. Hvernig úthlutunum er háttað — ekki er til dæmis tekið tillit til þeirra námsmanna sem eru í heilsárskúrsum. Læknanemar eða þeir sem stunda nám erlendis þurfa ítrekað að standa í basli við lánasjóðinn. Frítekjumarkið er allt of lágt, sér í lagi ef við erum að íhuga að hæstv. ríkisstjórn vill hafa séreignarstefnu; 2,5 milljónir á ári er allt sem námsmaður getur haft, þar af 1,5 milljónir frá lánasjóðnum.

Einnig er um að ræða ákveðið misrétti til náms þar sem námsmenn, nýstúdentar, sem eru að hefja nám við Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri, þurfa oft að flytja langleiðina af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Það eru bara ekkert allir sem eiga kost á því. Það er mjög erfitt fyrir íslenska námsmenn að hefja nám. Það eru til dæmis engir námsstyrkir. Það er ekki verið að bjóða upp á það að námsmenn utan af landi fái sérstaka námsstyrki til þess að hefja nám þar sem þeir þurfa að flytja langt til að fara í háskóla.

Mig langar til að fá að vita hvað verið er að gera í þessum málum og hvenær við megum vænta frumvarps frá hæstv. ráðherra.