145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[15:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóra í þessari ríkisstjórn. Það gladdi okkur í Samfylkingunni mjög þegar við sáum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra kynna stefnumörkun á sviði fæðingarorlofsmála. Þar var verið að kynna skýrslu sem unnin var undir forustu Birkis Jóns Jónssonar, fyrrverandi þingmanns, og þar var margt ánægjulegt að sjá vegna þess að við í Samfylkingunni höfum lagt fram mál sem eru af svipuðum toga, þ.e. að hámarksgreiðslan verði hækkuð og síðan líka að fæðingarorlofið verði lengt úr níu mánuðum í tólf. Þetta er stefnumörkun sem við lögðum af stað með á síðasta kjörtímabili en var dregin til baka af þessari ríkisstjórn. Ég sé núna að Framsóknarflokkurinn er að koma til baka og er tilbúinn að fara í þessa vegferð með okkur og fleirum hér inni sem er afar ánægjulegt. Þá bregður hins vegar svo við að í gær stígur fram varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og skýtur þetta í kaf með þeim orðum að hann sé orðinn þreyttur á innstæðulausum loforðum og að það sé séríslenskur plagsiður að lofa útgjöldum jafnvel upp á þúsundir milljóna án þess að gera grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna þau eða spara á móti. Hann fór mjög harkalega í þá stefnumörkun sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti.

Fyrir tveimur árum lækkaði þessi ríkisstjórn framlagið inn í Fæðingarorlofssjóð af tryggingagjaldinu úr 1,28% í 0,65%. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur lýst því yfir á Facebook-síðu sinni að ef við værum með 1,28% dygði það langleiðina upp í það sem þarf til að greiða fyrir þær tillögur sem lagðar hafa verið fram. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort ekki komi til greina að skila þessum fjármunum aftur inn í Fæðingarorlofssjóð þannig að við getum einhent okkur í (Forseti hringir.) að láta þessar tillögur verða að veruleika. Þessir fjármunir voru ekki notaðir til að lækka tryggingagjaldið í heild heldur fór þetta inn í hítina.