145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

breytingar á fæðingarorlofi.

[15:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni. Það sem ég er að ræða hér við hann er að þetta er dæmt af varaformanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem er talsmaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum í þessum sal, sem innstæðulaus loforð, þ.e. að ekki verði af þessu vegna þess að menn hafi ekki fjármagnað þetta. Það sem hann skautar fram hjá í þeirri umræðu er að þessi ríkisstjórn tók ákvörðun um að lækka framlögin í Fæðingarorlofssjóð úr 1,28% í 0,65%. Það var ekki til þess að lækka tryggingagjaldið, það skilaði sér að minnsta kosti ekki til þeirra sem greiða tryggingagjaldið, heldur var það fært á milli og sett inn í aðra málaflokka. Því er spurning mín sú hvort ekki sé eðlilegast að þessum fjármunum verði skilað inn í Fæðingarorlofssjóð til að við getum hafið uppbyggingu á honum að nýju. Greiðsluþakið hefur ekki verið hækkað í þrjú ár og eitt af fyrstu verkum þessar ríkisstjórnar var að draga til baka lenginguna úr níu upp í tólf mánuði.

Ég held að við getum náð samstöðu um (Forseti hringir.) að skila þessum fjármunum aftur inn í Fæðingarorlofssjóð og ég vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála.