145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[15:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er mikil eftirspurn eftir raforku í landinu núna. Þar kemur margt til. Aukin innlend umsvif hafa stóraukist og orkuþörf landsmanna fer vaxandi. Það er bæði ný og gömul atvinnustarfsemi sem þarf á þessari orku að halda og nú er því miður svo komið að það er farið að hamla uppbyggingu orkufreks iðnaðar og þess iðnaðar sem hefur kannski orkuþörf í meðallagi miðað við stóriðju.

Þess vegna skiptir máli að við notum á hverjum tíma alla þá kosti sem við höfum til að framleiða meiri orku og nú hafa sjónir beinst að Hvalárvirkjun á Vestfjörðum sem alllengi hefur verið til umræðu. Hún hefur farið í gegnum rammaáætlun um vernd og nýtingu orku og verið skipað í nýtingarflokk í því ferli. Þessi virkjunarkostur nýtur mikils stuðnings í héraði enda eru umhverfisáhrif hans óveruleg.

Við þessar aðstæður er svo mikilvægt að við ræðum einmitt þann orkukost sérstaklega og hvernig við getum nálgast hann. Í þessa umræðu blandast líka umræður um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, svokallað hringtengiverkefni raforkukerfisins á Vestfjörðum.

Þegar þetta er dregið saman í þá mynd að bæta afhendingaröryggi raforku og hringtengingu Vestfjarða og þá virkjunarkosti sem við eigum mögulega á Vestfjörðum til viðbótar við nefnda Hvalárvirkjun sem líka hafa núna komið með vaxandi þunga fram í umræðunni þurfum við að komast áfram með umræðuna og nálgast hana út frá því sjónarhorni að það þurfi með einhverjum hætti að byggja nýjan tengistað til að hægt sé að sækja þessa orku.

Því beinast sjónir að Landsneti og skilgreiningu á nýjum orkuafhendingarstað sem er innst í Ísafjarðardjúpi, oft nefndur við Nauteyri. Við það myndast fjárhagslegar forsendur til að fara út í Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og mögulega tvær minni virkjanir þar á heiðinni sem nefndar hafa verið Skúfnavatnavirkjun og Austurgilsvirkjun.

Það kemur fram í umræðu um þessa virkjunarkosti að fjárhagslegir möguleikar þeirra tengjast mjög því að við skilgreinum nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi. Því legg ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. iðnaðarráðherra:

1. Hvernig miðar því verkefni að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með svokallaðri hringtengingu og tengingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði?

2. Hver verða næstu skref varðandi tengistað Hvalárvirkjunar við flutningskerfi og hringtengingu á Vestfjörðum?