145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[15:54]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn.

Þetta mál er vel tímasett. Fyrir viku var ég á fundi á Ísafirði sem Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfirðinga stóðu fyrir um raforkumál á Vestfjörðum. Þar voru auk heimamanna fulltrúar frá Landsneti, Orkustofnun, Orkubúi Vestfjarða og virkjunaraðilar. Á fundinum var einmitt farið yfir þá stöðu sem fyrirspurnin snýr að og sérstaklega ræddar hugmyndir um hringtengingu á Vestfjörðum og tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið.

Staða þeirra mála sem fyrirspurnin beinist að er sú að þeim miðar vel áfram. Á fundinum á Ísafirði var mikill einhugur allra þeirra sem þar voru um að vinna áfram að framgangi þeirra enda yrði um byltingu að ræða í raforkumálum Vestfjarða ef þessi verkefni yrðu að veruleika.

Eins og fyrirspyrjandi gat um hafa hugmyndir um hringtengingu á Vestfjörðum verið til skoðunar. Við höfum verið að skoða þær í sérstakri Vestfjarðanefnd um orkumál sem sett var á laggirnar fyrir nokkrum árum og er leidd af orkumálastjóra með þátttöku orkufyrirtækjanna og heimamanna. Á fundi nefndarinnar í nóvember á síðasta ári var farið yfir nýjar hugmyndir um hringtengingu og tengingu Hvalárvirkjunar við flutningskerfið.

Sá vendipunktur hefur orðið í þessu máli að nú ganga hugmyndirnar út á að nýr tengipunktur, eins og fyrirspyrjandi nefndi, þ.e. afhendingarstaður raforku við Landsnet, yrði settur upp við botn Ísafjarðardjúps. Við það myndast fjárhagslegar forsendur til að fara út í Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og tvær aðrar minni virkjanir, Skúfnavatnavirkjun og Austurgilsvirkjun.

Eins og þingmaðurinn nefndi hefur Hvalárvirkjun verið í nýtingarflokki rammaáætlunar frá því að fyrsta rammaáætlun var afgreidd á Alþingi í byrjun árs 2013. Sú niðurstaða var óumdeild. Í rökstuðningi verkefnisstjórnar rammaáætlunar kemur fram að þetta sé eini virkjunarkosturinn á Vestfjörðum sem metinn var af öllum faghópum. Til að vitna orðrétt í rökstuðninginn: að virkjun á Vestfjörðum skiptir miklu máli fyrir orkuöryggi þar.

Fram til þessa hefur Hvalárvirkjun ekki verið fjárhagslega tæk vegna mikils tengikostnaðar og kerfisframlags sem miðast við að tengipunkturinn við flutningskerfið yrði í Geiradal. Við það að setja upp tengipunkt á nýja staðnum við botn Ísafjarðardjúps fer tengikostnaður virkjunarinnar úr um það bil 2 milljörðum kr. í um 500 millj. kr. og virkjunarframkvæmdin stendur þannig fjárhagslega undir sér. Nýr tengipunktur breytir því öllum forsendum, bæði hvað varðar Hvalárvirkjun og hringtengingu á Vestfjörðum.

Landsnet hefur tekið vel í þessa hugmynd og er með þetta mál núna til nánari skoðunar í samstarfi við virkjunaraðilana. Það er síðan Orkustofnunar að veita leyfi fyrir slíkri framkvæmd á grundvelli raforkulaga.

Með tengingu þessara þriggja virkjana inn á nýjan tengipunkt í botni Djúpsins verður hægt að koma raforku frá þessum nýju virkjunum inn á flutningskerfi raforku í suðurátt og það yrði fyrsta skrefið í því að hægt væri að fara af stað með virkjunarframkvæmdir, hugsanlega strax síðar á þessu ári eins og fram kom á fundinum á Ísafirði.

Annað skref varðandi hringtengingu yrði síðan að skoða með flutning á raforku frá hinum nýja tengipunkti í norðvestur inn á Ísafjörð. Það er þó öllu flóknara mál og þar koma meðal annars til skoðunar hugmyndir um sæstreng yfir Djúpið. Það mál þyrfti að skoða betur með tilliti til áhrifa á til að mynda sjávarútveg og kostnaðarmeta þann þátt.

Þriðji áfanginn til að loka hringtengingunni yrði síðan að bæta við núverandi línur í suðvestur frá Ísafirði yfir á suðurfirði.

Ég lít því svo á að það sé kominn ákveðinn skriður á þessi mál og ég fagna því mjög. Ekki hefur verið litið svo á að lagabreytingu þurfi til til að þessar hugmyndir verði að veruleika, ólíkt því sem áður var þar sem mikill tengikostnaður Hvalárvirkjunar miðað við gömlu hugmyndirnar kölluðu eftir aðkomu ríkisins og lagabreytingu til að lækka þau framlög.

Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, eins og ég sagði áðan, að virkjunin standi undir þeim kostnaði miðað við nýja tengipunktinn og að virkjunin ein og sér beri þá tengikostnaðinn. Ráðuneytið er hins vegar áfram um að fullkanna það mál í samráði við Orkustofnun, Landsnet og þá aðila sem að framkvæmdunum munu koma.

Að óbreyttu munu virkjunaraðilar því sækja um þau leyfi sem sækja þarf um á næstu mánuðum og (Forseti hringir.) Landsnet og Orkustofnun munu halda áfram skoðun og undirbúningi að nýjum tengipunkti í botni Djúpsins.