145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

raforkumál á Vestfjörðum og Hvalárvirkjun.

564. mál
[16:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þetta mál er fullkomlega rakið. Það er gleðilegt að heyra að loksins eru komnar kringumstæður sem gera það að verkum að hægt er að ráðast í þessa virkjun. Á mínum tíma sem iðnaðarráðherra var það skoðað mjög vel. Þá var staðan þannig að orkuverð var einfaldlega fjarri því að vera nægilega hátt til að virkjunin bæri sig.

Nú hefur tvennt gerst. Í fyrsta lagi eru menn að ræða nýjan tengipunkt við Landsvirkjun sem gerir það að verkum að kostnaður lækkar um 1,5 milljarða. Annað hefur líka gerst, orkuverð hefur hækkað verulega þannig að jafnvel án hins nýja tengipunkts er nálægt því að þessi virkjun mundi gera í blóðið sitt. Ég tel að þetta muni skipta sköpum fyrir uppbyggingu atvinnulífs og iðnaðar á Vestfjörðum. Þetta stórbætir stöðu atvinnulífsins þar vegna þess að loksins er hægt að sjá almennilegt afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Á þessum tímapunkti skulum við ekki gleyma — því að menn eru hér að tala um frumvörp í skúffum niðri — að hér var lagt fram frumvarp af hv. þm. séra Karli V. Matthíassyni á sínum tíma um þetta verk. Ég óska hæstv. ráðherra farsældar í þessu starfi (Forseti hringir.) og hv. þm. Haraldi Benediktssyni þakka ég fyrir að taka þetta þarfa mál hér upp.