145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

sáttamiðlun í sakamálum.

503. mál
[16:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Nágrannaríki okkar hafa á undanförnum árum prófað sig áfram með ferli sem kallast sáttamiðlun, bæði í einkamálum og sakamálum. Hún hefur oft og tíðum reynst árangursrík og þegar svo er reynist hún bæði fljótlegri og ódýrari en hin hefðbundna dómstólaleið.

Brotaþolar í sakamálum vilja stundum fyrst og fremst fá viðurkenningu á því að gert hafi verið á þeirra hlut. Þeir vilja sjá að gerandinn iðrist og að hann sjái sjálfur að hann hafi gert eitthvað rangt. Rannsóknir sýna að brotaþoli sem orðið hefur fyrir sálrænu áfalli getur flýtt fyrir bata sínum með því að tala beint við brotamanninn um það sálræna áfall sem brotið hefur valdið honum. Fyrir brotamanninn getur að sama skapi haft varnaðaráhrif að hann þurfi að sitja andspænis brotaþolanum og útskýra gjörðir sínar og hlusta á upplifun brotaþolans. Það gefur brotamanninum mun skýrari mynd af áhrifum brotsins, oft skýrari en hefðbundin dómsmeðferð gerir.

Auðvitað er það ekki algilt, enda ætti ekki að fara í sáttamiðlun nema þegar báðir aðilar telja mögulegt að það geti komið að gagni. Til að sáttamiðlun geti verið farsæl þurfa báðir aðilar að vera reiðubúnir. Ekki er hægt að þvinga brotaþola til að horfast í augu við brotamann. Að sama skapi þýðir lítið að fá brotamann sem ekki vill sættast að sáttaborði.

Sáttamiðlun hefur hins vegar gefið góða raun og jafnvel í mjög erfiðum málum, þegar aðilar máls eru báðir reiðubúnir til að reyna hana. Því langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra í fyrsta lagi:

Hefur ráðherra kannað möguleika þess að koma upp formlegu sáttamiðlunarferli í sakamálum eins og gert hefur verið í nágrannalöndum okkar, meðal annars í Noregi og Danmörku?

Í öðru lagi: Hefur ráðherra kynnt sér reynslu af tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum sem stóð yfir hér á landi á árunum 2006 og 2007? Ef svo er, hvernig metur ráðherra reynsluna af því verkefni?

Í þriðja lagi: Hefur ráðherra kynnt sér reynslu af sáttamiðlun með tilliti til annars vegar bata eða bótar á tjóni brotaþola og hins vegar betrunar geranda?

Í fjórða lagi: Telur ráðherra í sáttamiðlun í sakamálum geti aukið skilvirkni og hagræði í réttarkerfinu?