145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

endurskoðun reglugerðar um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða.

517. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að koma og svara fyrirspurninni í dag. Þetta er sú þriðja í röðinni um svipuð málefni.

Í sjúkra- og almannatryggingakerfinu eru mörg flækjustig. Eitt þessara flækjustiga er að ekki er gerður greinarmunur á fólki með varanlega og stöðuga örorku eða fötlun og þeim hópi sem er með tímabundna eða breytilega örorku eða fötlun. Þetta hefur þær afleiðingar að fólk með stöðuga og langvarandi örorku og fötlun þarf ítrekað að sækja um endurnýjanir á heilbrigðisvörum, bílastæðakortum, þjálfun og réttinum til þess að fá endurnýjun á hjálpartækjum þótt fyrir séð sé að einstaklingurinn búi við örorku eða fötlun alla ævi.

Sú reglugerð sem ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um er reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða nr. 369/2000. Í 1. gr. þessarar reglugerðar segir, með leyfi forseta:

„Stæðiskort fyrir hreyfihamlaða veitir, í sambandi við flutning á þeim sem fengið hefur slíkt kort útgefið, heimild til að leggja ökutæki hvar sem er á landinu í bifreiðastæði sem ætlað er fyrir fatlaða og auðkennt er með þar til gerðu umferðarmerki.“

Í 2. gr. er fjallað um umsóknarferli og hvernig ber að standa að því. Þar segir m.a.: „Með umsókn um stæðiskort skulu fylgja vottorð læknis sem gert skal samkvæmt fyrirmælum landlæknis.“

Í 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Lögreglustjóri skal leggja sjálfstætt mat á umsókn um stæðiskort og tryggja að fullnægjandi upplýsingar um hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir áður en ákvörðun um útgáfu korts eða endurnýjun er tekin.“

Í 4. gr. sem er sú sem ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um segir í 2. mgr.:

„Stæðiskort skal gefa út í tiltekinn tíma, að hámarki fimm ár, þó ekki skemur en tvö ár. Ef þörf er tímabundin má gefa út kort til skemmri tíma.“

Herra forseti. Mikil vinna og orka felst í því að þurfa að sækja ítrekað um endurnýjanir og um mikla sóun að ræða á tíma, hæfileikum og fjármunum fólks sem þarf á hjálpartækjunum að halda, heilbrigðisstarfsfólks sem þarf að sinna gerð, viðtöku og yfirferð vottorða og umsókna, og samfélagsins alls. Þar að auki hlýtur tækniþróun okkar tíma að ráða við skráningar sem koma í veg fyrir þetta flækjustig. Það er mikilvægt að skráning um þá einstaklinga sem búa við stöðuga og varanlega örorku eða fötlun sé geymd í gagnagrunni svo ekki þurfi stöðugt að gefa upplýsingarnar aftur og aftur. Krafan um sönnunarbyrði fatlaðs fólks, öryrkja og aðstandenda á eigin tilvist er niðurlægjandi og rýrir réttindi fólks til þess að búa við eðlislæga og mannlega reisn samkvæmt alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum.

Því vil ég beina þessari spurningu til hæstv. ráðherra: Hyggst ráðherra endurskoða reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða nr. 369/2000, samanber einkum 2. mgr. 4. gr., í því skyni að draga úr þörf á endurnýjun umsókna um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða hjá þeim hópi fólks sem er með varanlega fötlun eða sjúkdóm?