145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

bygging þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi.

565. mál
[16:34]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni kærlega fyrir fyrirspurnina.

Eins og fram kom í máli hans hefur margt breyst síðan árið 2008 og er að mörgu að hyggja nú þegar þjóðfélagið er ekki lengur í dróma. Segja má að þessi þjóðgarðsmiðstöð hafi orðið fyrir barðinu á því sem gerðist hér á þeim árum og hefur síðan legið í nokkrum dvala í átta ár.

Þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi á sér langan aðdraganda. Mig langar að það komi hér fram að það var Eysteinn Jónsson sem leiddi umræðuna og bar fram tillögu í Náttúruverndarráði árið 1972, fyrir rúmum 40 árum síðan, um að þarna yrði stofnaður þjóðgarður. Síðan sér maður í skjölum frá ársþingum þess ágæta ráðs að stöðugt var verið að reyna að ýta verkefninu úr vör, þannig að svona lagað getur tekið langan tíma. Ályktað var um stofnun þjóðgarðs sem bar heitið Þjóðgarður undir Jökli.

Eins og fram kom var þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stofnaður 28. júní árið 2001, þann ágæta júnídag. Ég hafði þá ánægju að vera viðstödd þá stofnun á Snæfellsnesi þann fyrirmyndardag. Þjóðgarðurinn var stofnaður til verndar sérstakri náttúru svæðisins og mjög mörgum og merkum sögulegum minjum.

Við vitum öll að á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á starfseminni þar sem annars staðar vegna mikillar og sívaxandi aukningar ferðamanna. Svo vitum við náttúrlega að þjóðgarðurinn er sérstakur að því leyti að hann er í umsjá Umhverfisstofnunar. Við eigum þrjá þjóðgarða; þjóðgarðinn á Snæfellsnesi, þjóðgarðinn á Þingvöllum, sem er undir umsjá forsætisráðuneytisins og Vatnajökulsþjóðgarð, sem heyrir beint undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, eins og Umhverfisstofnun og þar með Snæfellsnesþjóðgarður.

Það er líka alveg rétt sem fram kom að haldin var samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð þarna og var valin tillaga sem síðan hefur verið hönnuð og útfærð enn betur. Þess vegna liggur fyrir hönnun á húsi og skipulag á þessum stað, skammt fyrir ofan byggðina á Hellissandi. Ég tel að um það hafi verið góð samvinna við sveitarfélagið Snæfellsnes.

Ég vil segja það hér að forstöðumaður Umhverfisstofnunar og bæjarstjórinn í Snæfellsbæ komu til mín í ráðuneytið og brýndu mig og ráðuneytið til góðra verka varðandi þjóðgarðsmiðstöðina. Líkt og í öðrum þjóðgörðum vil ég virkilega koma á þessari þjóðgarðsmiðstöð. Ég hef barist fyrir þjóðgarðsmiðstöð á Kirkjubæjarklaustri. Hún er komin inn í fjárlög. Ég tel ekki síður að byggja eigi slíka miðstöð á Hellissandi.

Þetta er dálítið djörf bygging en passar afskaplega vel inn í umhverfið. Ég held að við verðum að keyra áfram þá byggingu sem fyrirhuguð er. Við vitum náttúrlega öll um þá perlu sem Snæfellsnesið er. Þar er einstök fegurð og saga, eins og nóbelskáldið lýsti vel; þar sem jökulinn ber við loft.

Ég endurtek að í ljósi þeirrar aukningar ferðamanna sem spáð er þá er brýnt að huga að skipulagi og reyna að dreifa ferðamannastraumnum með spennandi ferðamannaleiðum. Ég veit ekki betur en að nýlega hafi komið fram í erlendri könnun hvað Snæfellsnesið hafi upp á margt að bjóða og það sé virkilega eftirsóknarverður staður. Þá verðum við náttúrlega að vera tilbúin með innviðina.

Þess vegna mun ég reyna að ýta á það eins og ég mögulega get að haldið verði áfram með þessa miðstöð. Við höfum ýtt á það og spurst fyrir undanfarnar vikur. Kostnaðaráætlun liggur ekki alveg fyrir en talið er að miðstöðin kosti ekki meira en sú miðstöð sem við hyggjumst reisa á Kirkjubæjarklaustri. Mér finnst því eðlilegt að þessir tveir þjóðgarðar fylgist að varðandi þjónustumiðstöðvar. Við reynum að koma (Forseti hringir.) þjóðgarðsmiðstöðinni á Hellissandi af stað eins og gert hefur verið á Kirkjubæjarklaustri.