145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að við sem erum á Alþingi erum sammála um að grípa þarf til varna fyrir íslenska tungu. Hún stendur í varnarbaráttu í fjöltyngdum heimi, ekki síst vegna þess að heimurinn er orðinn svo stafrænn sem raun ber vitni. Við hæstv. ráðherra höfum átt í nokkrum skoðanaskiptum um þessi mál og ég hef skynjað að við deilum skilningi á þeirri stöðu sem uppi er, að íslensk tunga þarf á öllum okkar stuðningi að halda og að íslensk tunga er líka verðmæti sem við viljum standa vörð um, ekki bara fyrir Ísland og Íslendinga heldur fyrir allar þjóðir og fyrir fjölskyldur tungumálanna sem jarðarbúar nýta til daglegra samskipta og til að tjá sínar væntingar, drauma og þrár og skrifa niður minningar sínar eða sínar pólitísku hugleiðingar eftir atvikum.

Nú liggur fyrir að umtalsvert fjármagn þarf til að bragur sé að þessari vörn fyrir íslenska tungu. Hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn lagði til í fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra upphæð sem var engan veginn sú sem þeir sem best þekkja til töldu þurfa í fyrstu lotu. Stjórnarandstaðan sameinaðist um breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið, meðal annars breytingartillögu um þetta mál, þar sem við lögðum til umtalsverða viðbót á fjárlögum. Hæstv. fjármálaráðherra, eins og aðrir stjórnarliðar, greiddi atkvæði gegn þeirri viðbót. Því spyr ég:

Hvaða áform hefur hæstv. ráðherra varðandi stöðu íslenskrar tungu í stafrænum heimi? Og: Hvað líður þessari fjármögnun verkefnisins með skírskotun til þarfagreiningar og orða ráðherra um málefnið á fyrri stigum?

Það kom fram í orðum ráðherra að hann teldi rétt að efna til samstarfs við atvinnulífið í þessum efnum. Af því hefur ekkert frést síðan hæstv. ráðherra nefndi það í umræðum um fjárlög og í ágætri sérstakri umræðu á degi íslenskrar tungu. Þannig að þriðja spurningin er: Hvernig verður háttað boðuðu samstarfi við atvinnulífið um stafræna íslensku?