145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að ræða þetta mjög ítarlega á mínútu, en gott og vel. Ég vil bara ítreka það sem ég hef svo oft sagt hérna í pontu, ég tel ekki að íslenskan lifi af í frjálsri samkeppni. Ég held að það þurfi ríkisfé og þó nokkuð mikið af því til þess að við getum haldið í íslenska tungu til lengri tíma. Ástæðan er einföld: Enskan er ódýrari. Hún er næstum því ókeypis. Tölvutæknin auðvitað og tæknin almennt þróast alltaf með áherslu á ensku. Enska er tiltölulega heppilegt tungumál fyrir tölvuvinnslu. Íslenskan er mjög óheppilegt tungumál fyrir tölvuvinnslu. Þannig að verkefnið er mjög stórt og viðamikið og ég tel að það þurfi að vera til lengri tíma. Ég ætla á þessum örfáu sekúndum að leggja til, til umhugsunar, hvort það ætti ekki hreinlega að vera stofnun til staðar sem vinni í þessum málum meðfram tækniframförum, því að ekkert lát er á framförum þar á bæ. Ég tel 30 milljónir auðvitað vera meira en 25 milljónir en samt sem áður er það langt frá því að vera nóg. Ég legg áherslu á að það þarf að vera innspýting fjár í svona verkefni til lengri tíma.