145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:54]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög þarft að taka þetta mál til umræðu og full ástæða til að þakka það. Íslenskan er verðmæti á heimsvísu. Hún er tungumál í útrýmingarhættu, töluð af aðeins 300 þúsund manns. Hún er töluð nánast í upprunalegri mynd, sáralítið breytt frá því sem var við upphaf byggðar. Við getum lesið okkur til skilnings fornbókmenntir okkar og Eddukvæði og Íslendingasögur sem heyra til heimsbókmennta. Þannig að það er ekki bara einhver sérviska að viðhalda málinu. Tungan felur í sér málsöguna. Hún felur í sér þróun íslensks tungumáls. Ef við glötum tungumálinu glötum við menningu okkar. Við megum því ekki sofna á verðinum. Það er engin hætta á því að málið drukkni í stafrænum heimi ef við bara gætum okkar. Og það eigum við að gera.