145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Fáum sviðum vísindanna fleygir jafn hratt fram og þeim sem lúta að því að búa til möguleika á því að tala við tæki. Raddstýrðar tölvur verða í flestum heimilistækjum innan örfárra ára. Hæstv. menntamálaráðherra, hver sem hann verður þá, getur þá farið út í búð og keypt sér heimilistæki sem hann getur síðan spjallað við heima. Spurningin er: Á hvaða tungumáli mun hæstv. menntamálaráðherra framtíðarinnar tala við sín heimilistæki? Í þessu er voðinn og háskinn búinn. Það er hugsanlegt að ef ekkert verður að gert verði íslenskan ekki það tungumál sem þar verður notað heldur enskan. Og þá er mjög líklegt að á tiltölulega fáum kynslóðum geti glatast sá grunnur sem menn þurfa að hafa til að viðhalda tungumálinu. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði að það væri ekki hægt að stýra fram hjá þessum háska nema með miklum fjármunum. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að um væri að ræða verulegan háska. En við vitum hvað það kostar (Forseti hringir.) að sneiða fram hjá honum. Það hefur verið kostnaðargreint. Það eru 1 þús. milljónir. Það eru 100 milljónir á tíu árum. Er ekki íslenskan 1 milljarðs virði?