145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær þakkir sem hér hafa verið fluttar til hv. þingmanna fyrir þátttöku í umræðunni. Ég vil segja það fyrst að ég tel reyndar að málum miði áfram vegna þess að við höfum komið á laggirnar þessum samstarfshópi sem ég talaði um að þyrfti að gera, þ.e. milli atvinnulífsins og ríkisins. Þessi hópur mun hafa umsjón með starfi þess einstaklings sem mun vinna næstu mánuðina, næsta hálfa árið, við að kortleggja þetta nákvæmlega þannig að þá höfum við sameiginlega áætlun milli ríkisins og atvinnulífsins um það hvernig við hyggjumst bregðast við.

Ástæðan fyrir því að atvinnulífið tekur þátt í þessu er einmitt að það er ekki bara voði og háski eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan, það eru líka tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf að við náum árangri í þessu. Rétt eins og það er voði og háski ef okkur tekst ekki að tala við heimilistækin sem við kaupum okkur geta menn rétt ímyndað sér hvað gerist þegar bílarnir okkar verða drifnir áfram af skipunum o.s.frv. Þá sjá menn í hendi sér hversu mikilvægt það er bara sem öryggisatriði fyrir okkur að gera þetta. En aðalatriðið er að vernda tungumálið okkar og þar með menningu okkar og þar með okkur sjálf. Það er auðvitað það sem þetta snýst um.

Við höfum fengið skilaboð um það frá atvinnulífinu að það vilji taka þátt í þessu, vera með okkur í þessu, vegna þess að þar sjá menn líka tækifærin. Menn vilja grípa þau og taka þátt í þessu. Þess vegna er ég ekki sammála mati hv. þingmanns og málshefjanda sem sagði að ekkert væri að gerast í þessu. Ég tel að það sé reyndar stórmerkilegt og áhugavert að atvinnulífið og ríkið skuli vera að taka saman höndum í því verkefni að verja íslensku. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert með þessum hætti áður. Ég tel þetta merki þess að atvinnulífið taki þetta alvarlega og sýni því skilning að grundvöllur okkar er einmitt tungumálið. Ég tel hrósvert að atvinnulífið komi að málinu og ég vil þakka atvinnulífinu fyrir þennan áhuga.

Ég vænti þess að innan sex mánaða þegar starfshópurinn hefur lokið störfum sínum með þeim framkvæmdastjóra sem þar mun starfa, sem mun stýra vinnunni, fáum við í hendurnar áætlun (Forseti hringir.) sem er sameiginleg áætlun okkar til þess að bregðast við. Ég hef miklar væntingar um að á grundvelli þeirrar áætlunar verði síðan hægt að bregðast við af festu.