145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

herferð SÍM um að borga myndlistarmönnum.

470. mál
[17:11]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vísaði til þess í svari mínu áðan að uppi er sú staða að fjöldi safna er í eigu sveitarstjórna á landinu. Þegar kemur að launagreiðslum af hálfu þeirra er erfiðara um vik fyrir ríkið að hafa þar afskipti af. Ég vil ræða hér áfram að við fengum bréf frá SÍM þar sem sagt er að hugmyndin sé að móta tillögur að launasamningum fyrir listamenn sem sýna eigi í listasöfnum á Íslandi.

Bara til að halda áfram með þau álitaefni sem koma upp langar mig að nefna að það þarf að ræða hugmyndir um tvenns konar greiðslur, annars vegar þóknanir fyrir sýningarhald og hins vegar laun fyrir vinnuframlag listamanna við undirbúning og framkvæmd sýninga. Íhugunarefnið varðar sérstaklega hugmyndir um sérstakar þóknanir fyrir sýningarhald sem eru, eftir því sem ég best veit, nýmæli í framkvæmd myndlistarsýninga á Íslandi en eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er það fyrirkomulag komið til framkvæmda í nokkrum löndum, Svíþjóð, Noregi og Danmörku. Það er sjálfsagt fyrir okkur að skoða það mjög vel.

Hvað varðar launasamninga er eðlilegt að greitt sé fyrir vinnu listamanna í söfnum jafnt sem annarra. Hv. þingmaður kallaði sérstaklega eftir þeirri skoðun minni. Ég tel það alveg augljóst, en það er ekki verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins að semja um laun. Það er alltaf á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins að annast launasamninga fyrir hönd ríkisins ef um slíka samninga er að ræða á vegum ríkisins. Ef um er að ræða samninga sem eiga að vera einhvers konar skapalón eða grundvöllur fyrir samninga listamanna við öll söfn á Íslandi tel ég að ráðuneytið hafi tæpast umboð til að gera slíkan samning fyrir annarra hönd. Það þarf að hafa mjög í huga að við getum illa bundið þá sem ekki heyra undir okkar stjórnsýslu.

Allt eru þetta álitamál sem þarf að ræða en ég ítreka að ég tel sjálfgefið að listamenn eigi að fá greitt fyrir vinnu sína. Það tel ég að hljóti að vera útgangspunkturinn í þessu hvernig sem menn vilja nálgast það. (Forseti hringir.) Þýðir það að við tökum meiri peninga út úr ríkissjóði eða sveitarfélögin meira úr sínum sjóðum? Hvernig sem það er gert þarf í það minnsta að hafa það sjónarmið til grundvallar að það á að borga fyrir þá vinnu sem er unnin. Svo þurfa menn að hugsa um heildarfjármagnið sem á að renna til þessarar listgreinar o.s.frv. Það er önnur umræða — en það á að greiða fyrir þá vinnu sem er unnin.