145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skipun nýrrar heimsminjanefndar.

478. mál
[17:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og ég skil málið er eftirfylgni við samninginn þá í höndum starfsmanna mennta- og menningarmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, fannst mér hæstv. ráðherra segja, og þeirra staða sem tilnefndir hafa verið. Vitnar hæstv. ráðherra þar til þeirra sveitarfélaga sem fara með mál Surtseyjar annars vegar og Þingvalla hins vegar.

Ég bið hæstv. ráðherra að staðfesta þann skilning minn.

Hæstv. ráðherra sló það ekki af að ný nefnd yrði skipuð. Ég skil þó bobba hæstv. ráðherra í ljósi þess að í nefndinni hafa setið hingað til, eða á síðasta kjörtímabili, fulltrúar þjóðminjavörslu, sem hefur nú verið færð frá mennta- og menningarmálaráðuneyti yfir til forsætisráðuneytis. En heimsminjasamningurinn er auðvitað áfram undir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Þar sátu hins vegar fulltrúar Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar sem báðar eru komnar undir forsætisráðuneytið. Því er ósköp eðlilegt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem fer með samninginn, vilji hafa hönd í bagga með því hvernig nákvæmlega er staðið að eftirfylgni samningsins í ljósi þess að þessar stofnanir eru farnar frá hæstv. ráðherra. Hann veit ósköp vel hvað mér finnst um þá tilraun að færa þær stofnanir yfir til forsætisráðuneytisins og ég hef aldrei skilið rökstuðninginn fyrir því.

Getur verið að það hafi spilað inn í að ekki hefur verið skipuð ný heimsminjanefnd? Þarf ekki samt að koma þeim málum fyrir? Þó að ég beri fullt traust til starfsmanna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og veit að þar er mikil fagþekking fyrir tel ég að þar tapist ýmislegt við að hafa ekki þessa nefnd, sem vissulega er ekki lögbundin og það er ekki lögbundið að þar þurfi endilega að vera fulltrúar þessara tilteknu stofnana sem ég nefndi, það má gera með öðrum hætti og hefur verið gert með öðrum hætti. En það tapast ákveðinn sýnileiki og gagnsæi (Forseti hringir.) gagnvart þessum málaflokki ef ekki er tiltekinn póstur eða vettvangur, getum við sagt, sem sér um eftirfylgni. Mig langar að fá sýn hæstv. ráðherra á það.