145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skipun nýrrar heimsminjanefndar.

478. mál
[17:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðalatriðið er, eins og hv. þingmaður nefndi, að hér er ekki um að ræða lögboðna nefnd. Það sem skiptir mestu máli er að þessum verkefnum sé vel sinnt, að þeim sé vel fyrir komið og að það séu færir einstaklingar og fagmenn sem hafi gát á þessum málum. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, sem hefur af því reynslu eftir að hafa verið hæstv. ráðherra í þessu ráðuneyti, að þar starfar fólk sem við treystum 100% fyrir þessum verkefnum.

Tekin var sú ákvörðun árið 2013 að fjölga þeim aðilum sem ættu fulltrúa í nefndinni. Til þess var ég að vísa varðandi samráð. En ég held að það mæli í sjálfu sér ekkert gegn því að þessi nefnd verði sett aftur á laggirnar. Ég vil bara ítreka að á þessum málum hefur verið haldið af mikilli festu og alvöru og okkar færustu sérfræðingar koma þar að. Hugsunin er sú að það sé samkomulag um samráð og eftirfylgni sem varð á milli menntamálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins þegar samningur var staðfestur árið 1995. Það er það sem skiptir hér máli. Hvort sem það er gert með svona nefnd, sem þó er ekki lögbundin — og það er kannski umhugsunarvert hvers vegna hún er ekki lögbundin — eða hvort það er gert á vettvangi nefndarinnar, hvort hún er kölluð saman eða ekki eða hvort starfsmenn ráðuneytanna undir yfirstjórn hæstv. ráðherra koma að þessu finnst mér ekki aðalmálið, heldur þurfum við að huga vel að þessum málum og við höfum á þeim góðar gætur, enda heyrði ég ekki að það væru nein slík vandamál sem hv. þingmaður væri að vísa til heldur var hún einfaldlega að spyrja um afdrif þessarar nefndar. Ég tel ekkert mæla gegn því að nefndin verði síðan skipuð aftur. Við eigum tilnefningar í nefndina og þær liggja fyrir. Við munum kannski fara aðeins betur yfir hlutverk nefndarinnar áður en við förum að senda út eitthvert sérstakt (Forseti hringir.) skipunarbréf vegna hennar, en við munum skoða málið.